Hörður Orri Grettisson, framkvæmdarstjóri Herjólfs ohf. hefur ítrekað neitað að svara spurningum Mannlífs er varða meint brot Ívars Torfasonar skipstjóra. Heimildir Mannlífs herma að hann hafi fengið tiltal vegna meintra blygðunarsemisbrota gagnvart konum í áhöfn Herjólfs.
Skipstjórinn var nýlega áminntur og lækkaður um tign fyrir að sigla skipinu án réttinda fyrir jól og fyrir að skrá nöfn áhafnarmeðlima fyrir siglingunum án þeirra samþykki, úr því að vera yfirskipstjóri og niður í venjulegan skipstjóra. Ekki liggur fyrir hver munurinn er á tiltlunum. Lögreglan rannsakar nú málið.
Sagt hefur verið frá því í fréttum undanfarið að ólga sé innan áhafnar Herjólfs vegna brota skipstjórans og hafa þó nokkrir starfsmenn sagt upp störfum, síðast í gær þegar tveir hættu. Heimildir Mannlífs herma að nú hafi verið ákveðið að halda einhverskonar námskeið fyrir starfsfólkið og ráða vinnustaðasálfræðing, í von um að laga andrúmsloftið um borð.
Eftir ítrekaðar tilraunir náðist loksins í Hörð Orra í síma en þar sagðist hann ekki svara neinu varðandi skipstjórann. „Það er ekkert meira fyrir mig um málið að segja, ég er bara bundinn trúnaði við mína starfsmenn og það sem gerist hérna í þessu fyrirtæki alveg sama hvað það er,“ sagði Hörður og bætti við að hann hafi fylgst með umræðunni síðustu daga.
Mannlíf sendi Herði einnig tölvupóst með nokkrum spurningum er vörðuðu meint blygðunarsemisbrot Ívars gagnvart kvenkyns áhafnarmeðlimum skipsins. Svaraði Hörður á sama máta og í símtalinu. Þó hafði hann svarað því áður að hann hafi fengið leyfi frá skipstjóranum til að svara að hann hefði aldrei áður fengið áminningu í starfi hjá Herjólfi. Hér eru spurningarnar sem Hörður Orri vill ekki svara:
Hefur skipstjórinn fengið ef ekki formlega áminningu, þá tiltal vegna ósæmilegrar hegðunar gagnvart kvenkyns áhafnarmeðlimum?
Hafa kvartanir borist ykkur vegna ósæmilegrar hegðunar skipstjórans gagnvart kvenkyns áhafnarmeðlimum? Ef svo er, hvað var gert í málinu?
Hver er nú yfirskipstjóri hjá Herjólfi?
Hvernig er starfskylda yfirskipstjóra Herjólfs frábrugðin venjulegum skipstjórum skipsins?