Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, tilkynnti það í gær að hann hefur ákveðið að ákveðið að framlengja gildistíma þeirra aðgerða og reglna, sem gripið hefur verið til, til að stöðva útbreiðslu COVID-19, út apríl. Þessu sagði hann frá á blaðamannafundi í Hvíta húsinu. Hann hafði áður talað um að hægt yrði að slaka á aðgerðum um miðjan apríl.
Hann sagði að hægt væri að reikna með að faraldurinn myndi ná hámarki í Bandaríkjunum eftir tvær vikur og því þyrfti að framlengja gildistíma reglnanna.
Um 140 þúsund einstaklingar hafa nú greinst með COVID-19 í Bandaríkjunum. Staðfest dauðsföll vegna veirunnar þar í landi voru orðin 2.493 í gærkvöldi samkvæmt tölum frá Johns Hopkins háskólanum.