Réttarhöld þar sem framsalskrafa á hendur Julian Assange, stofnanda Wikileaks, verður tekin fyrir hefjast í London dag. Bandarísk stjórnvöld fara fram á að Assange verði framseldur til Bandaríkjanna.
Assange hefur verið ákærður í Bandaríkjunum, meðal annars fyrir uppljóstranir og leka á trúnaðargögnum um hernað Bandaríkjanna í Afganistan og Íran. Yrði hann sakfelldur fyrir öll brotin gæti hann átt von á 175 ára fangelsisdómi.
Assange hefur setið í fangelsi í Bretlandi frá því í apríl, eða frá því að hann var sóttur í sendiráð Ekvador í London þar sem hann hafði dvalið frá árinu 2012. Assange hafði leitað skjóls þar af ótta við að bresk stjórnvöld myndu framselja hann til Svíþjóðar og þaðan til Bandaríkjanna.

Baráttufundur var haldinn á laugardaginn fyrir Assange á þingtorginu fyrir framan Westminster í London. Margir þekktir einstaklingar létu sjá sig, svo sem fatahönnuðurinn Vivienne Westwood og Roger Waters úr Pink Floyd. „Blaðamennska er ekki glæpur,“ stóð meðal annars á spjöldum mótmælenda.
Lausa allra mála í Svíþjóð
Í nóvember lét saksóknaraembættið í Svíþjóð rannsókn niður falla á nauðgun sem Assange er sagður hafa gerst sekur um í Stokkhólmi árið 2010. Eva-Marie Persson, sagði ástæðuna vera ónæg sönnunargögn.
Sænsk kona ásakaði Assange um nauðgun eftir að þau hittust á WikiLeaks-ráðstefnu árið 2010 en Assange hefur alltaf hafnað ásökununum.