Miðvikudagur 15. janúar, 2025
8.8 C
Reykjavik

Frekari samþjöppun á fjölmiðlamarkaði varhugaverð

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þegar samþjöppun er mikil í eignarhaldi fjölmiðla eða fákeppni ríkir á fjölmiðlamarkaði er hættan sú að umfjöllun verði einsleit og heilindi fjölmiðla sé stofnað í hættu. Kaup Árvakurs hf. og 365 miðla hf., á Póstmiðstöðinni ehf. gefur tilefni til að velta fyrir sér stöðu fjölmiðla hér á landi.

Fjölmiðlar gegna mikilvægu hlutverki í upplýstu lýðræðissamfélagi. Þeir veita valdhöfum og stórfyrirtækjum landsins aðhald og þjóna almannahagsmunum með að stuðla að upplýstri, vandaðri umræðu. Þess vegna hafa fjölmiðlar verið nefndir fjórða valdið. Þegar samþjöppun er mikil í eignarhaldi eða fákeppni ríkir á fjölmiðlamarkaði er hættan sú að umfjöllun verði einsleit og heilindi fjölmiðla sé stofnað í hættu, einkum ef sterk tengsl eru á milli eiganda fjölmiðlafyrirtækja og ráðandi stjórnmálaafla- eða afla, þeirra sem styðja tiltekna stefnu umfram aðra.

Slík staða ýtir undir að fjölmiðlar séu nýttir til að reka stjórnmálaáróður í þágu eiganda. Það er því afar mikilvægt að samfélagið styðji við fjölbreytni fjölmiðla, líkt og er eitt af markmiðum fjölmiðlalaga, og að opinberir aðilar átti sig á að fjölmiðlar eru að þessu leyti ólíkir venjulegum fyrirtækjum. Þannig sé stutt við að þeim sé kleift að sinna sínu hlutverki án áhrifa frá fyrirtækjum, stofnunum eða tengsla við tiltekna stjórnmálaflokka.

Umfjöllunin átti erindi við almenning

Nýlegt dæmi af afar umdeildu lögbanni Stundarinnar af fréttaflutningi um viðskipti þáverandi þingmanns, og núverandi fjármálaráðherra, í aðdraganda efnahagshrunsins upp úr Glitnisgögnunum svokölluðu hafa vakið upp spurningar um stöðu fjölmiðla hér á landi. Lögbanninu var hafnað í héraðsdómi meðal annars með vísan til þess að umfjöllunin hafi átt erindi við almenning.

Sú niðurstaða var samþykkt af Landsrétti í byrjun október, rúmu ári eftir að lögbannið tók gildi. Tímapunktur lögbannsins einn og sér gefur tilefni til vangaveltna um hvort þöggun ætti sér stað í aðdraganda kosninga en lögbann er viðurhlutamikil íhlutun í tjáningarfrelsið. Líklegt er að þessi aðgerð hafi jafnframt haft fjárhagslegt tjón í för með sér fyrir Stundina. Spurning er hvort þetta ferli gefi tilefni til þess að leitað verði til Mannréttindadómstóls Evrópu vegna málsmeðferðar, með þeim fyrirvara þó að höfundi er ekki ljóst hvort skilyrði fyrir málshöfðun séu uppfyllt.

Gætu misbeitt stöðu sinni

- Auglýsing -

Annað mál gefur tilefni til að velta fyrir sér stöðu fjölmiðla hér á landi varðandi samþjöppun á fjölmiðlamarkaði. Fyrir nokkrum dögum samþykkti Samkeppniseftirlitið kaup Árvakurs hf. og 365 miðla hf., á Póstmiðstöðinni ehf. með tilteknum skilyrðum. Þessi tvö félög gefa út Fréttablaðið og Morgunblaðið og með kaupum á Póstmiðstöðinni sameina blöðin dreifikerfi sín fyrir dagblöð, tímarit og fjölpóst en áður voru dreifikerfi þeirra aðskilin.

Eftir kaupin er aðeins einn annar dreifiaðili í boði, Íslandspóstur, en ef blað á að koma út viku- eða daglega er erfitt að nýta sér þjónustu hans. Rannsókn Samkeppniseftirlitsins á þessum kaupum leiddi í ljós augljósa hættu á þessari tilhögun: nú gætu þessi tvö blöð misbeitt stöðu sinni gagnvart keppinautum sem eru m.a. Mannlíf og Stundin t.d. með að hefta aðgang þeirra að dreifikerfi Póstmiðstöðvarinnar, með verðlagningu eða öðrum leiðum.

Í stað þess að hafna kaupunum vegna þessarar hættu eru þau heimiluð með skilyrðum á grundvelli þess fjárhagslega hagræðis sem næst í dreifingu, en Póstmiðstöðinni verður m.a. óheimilt að útiloka aðila frá viðskiptum og er gert skylt að setja upp almenna verðskrá.

- Auglýsing -

Engin fyrirmæli eru um hvert innihald slíkrar verðskrá á að vera, en ef eigandinn er sá sami skiptir að endingu ekki máli fyrir þessa tvo aðila hvert verðið er. Aðeins er um að ræða tilfærslu fjármuna úr einum vasanum í annan.

Dýrt að dreifa

Dreifing er iðulega einn dýrasti kostnaðarliður prentmiðils, mögulega fyrir utan launakostnað. Ef verð hækkar getur það þrengt rekstrarskilyrði fjölmiðils, þannig að honum sé ekki lengur kleift að starfa og það getur einnig haft áhrif á gæði og efni upplýsinga. Samkvæmt sáttinni ef brotið er á skilyrðum Samkeppniseftirlitsins, t.d. við samtvinnun á prenti og dreifingu, eiga viðurlög að fara samkvæmt samkeppnislögum. Málarekstur fyrir Samkeppniseftirlitinu er iðulega tímafrekur og ekkert sem útilokar að prentmiðill hrökklist af markaði á meðan.

Dreifing er iðulega einn dýrasti kostnaðarliður prentmiðils.

Markmið með skilyrðum er að gæta jafnræðis og koma í veg fyrir að þrengt sé að keppinautum. Það er góðra gjalda vert. En þessi skilyrði gera það ekki, ef raunverulegur vilji er til staðar að hindra útgáfu annarra blaða eða gera þeim það erfiðara fyrir. Það verður því aðeins að treysta að svo verði ekki. Þá ber að nefna að ef kaupin eru byggð á hagkvæmnisrökum, ætti dreifing að verða ódýrari fyrir alla aðra viðskiptavini ef jafnræði og hlutleysi er gætt.  Það verður líka að koma í ljós hvort það verði raunin.

Forsvarsmenn 365 hf. sagðir vilja kaupa Ísafold

Loks ber að nefna að í dag eru tveir aðilar á markaði sem hafa burði til að prenta dagblöð, Árvakur og Ísafold. Samkvæmt heimildum Mannlífs hafa forsvarsmenn 365 hf. einnig gert tilraun til að kaupa síðarnefndu prentsmiðjuna. Með sameiningu á dreifikerfi ásamt þeim kaupum væri því allt prent- og dreifikerfi íslenskra fjölmiðla í höndum ráðandi aðila á markaði. Það gefur augaleið að sú staða er afar varhugaverð.

Á undanförnum misserum hafa smærri fjölmiðlar líkt og Stundin verið að setja mál á dagskrá sem varða mikilvæga almannahagsmuni sem aðrir stærri miðlar hafa ekki gert, líkt og lögbannsmálið ber vitni um sem og nýlegar Klausturupptökur. Vegna þess mikilvæga hlutverks sem fjölmiðlar gegna fyrir opna lýðræðislega umræðu og að uppræta spillingu hlítur að vega mjög þungt að samfélagið styðji við fjölbreytni fjölmiðla nú sem áður og opinberar stofnanir fari varlega við að heimila frekari samþjöppun hjá aðilum sem nú þegar eru markaðsráðandi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -