Föstudagur 27. desember, 2024
-1.2 C
Reykjavik

Friðrik telur dansinn lækna allt: „Þurfti að vinna mig tvisvar í gegnum kynferðisofbeldi“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Eitt sem kemur skemmtilega á óvart er að uppgötva það að dansinn læknar allt. Hann bætir líkamann, samhæfinguna og GEÐIÐ. Þú getur ekki verið þunglyndur og dansað á sama tíma. Í allavega einn klukkutíma, á meðan þú dansar, þá gleymist öll vanlíðan af því að þú dansar yfir hana. Breytir rigningunni í sól þó að ekki sé nema bara rétt á meðan dansinn dunar.“

„Það eru mörg lög í einni mannveru,“ segir Friðrik Agni sem segist vera draumóramaður með mjög mikinn metnað gagnvart lífinu og sjálfum sér.

„Það bítur mig stundum í afturendann en virkar samt líka þannig að ég framkvæmi mjög mikið.“

Friðrik segist elska að dansa, ferðast, skemmta og vera með fólki; auka lífsgleðina hjá sér sjálfum og fólki í kringum sig.

„Ég hef alltaf verið að fást við marga hluti til hliðar við 100% starf þannig að núna var kominn tími til að fást einungis við mín eigin, skapandi verkefni.“

Í dag er Friðrik að kenna Zumba, Jallabina (arabískt dansfitness) og Partý Workout á nokkrum mismunandi stöðum í Reykjavík: World Class, Dansverkstæðinu og Kramhúsinu. Auk þess kennir hann dans í Álftamýrarskóla. Friðrik segist „gigga“ oft og koma fram á viðburðum eða við ákveðin tilefni, m.a. sem veislustjóri en svo kom hann líka fram með gestaatriði á Burlesque-sýningu hjá Búkalú síðustu helgi og flutti erindi í Hörpu á Mannauðsdeginum.

Fyrir utan dans og skemmtun þá er Friðrik nýfarinn af stað með nýjan hlaðvarpsþátt með

- Auglýsing -
Ljósmyndari: Einar Magnússon

vini sínum Sigursteini Mássyni þar sem þeir fjalla um geðrænar áskoranir. Þátturinn ber það skemmtilega nafn GEÐSLAGIÐ og var fyrsta þættinum varpað úr hlaði í síðustu viku.

„Ég hlakka til að fylgja hlaðvarpinu eftir og næ vonandi að tengja við hlustendur og skapa uppbyggilegan vettvang þar sem fólk kryfur geðheilsu sína.“

Stoltastur af því að vera hann sjálfur
Friðrik segist annars vera stoltastur af því að þora að vera hann sjálfur.

„Ég finn það, eftir því sem ég eldist, hvað það er mikilvægt og nauðsynlegt að vera stoltur af sjálfum sér, bara fyrir að gera og þora. Við þurfum ekki endilega að vera sigurvegarar í keppni eða vera með milljón fylgjendur á samfélagsmiðlum. Ég held að við þurfum að lækka aðeins „standardinn“ og fagna litlum persónulegum sigrum; sjá að við getum verið stolt, t.d. bara af því að þora að segja nei við verkefnum ef þau henta okkur illa; verið stolt af því að vakna aðeins fyrr, stolt af því að hafa sagt „ég elska þig“ við maka eða ástvin. Verum stolt af öllu því sem okkur finnst stundum erfitt að gera, því ber að fagna og vera stolt af þegar loksins við tæklum það.“

- Auglýsing -

Hann segist hins vegar ekki alltaf ná því að vera stoltur af öllu sem hann gerir eða standi fyrir. „En ef ég ætti að nefna nokkra svona „efnislega“ hluti, eða eitthvað sem tengist verkefnum þá get ég sagt að ég er stoltur af því að hafa gefið út ljóðabók í fyrra. Ég er líka stoltur af því að hafa dúxað í mastersnámi þótt ég hafi ekki klárað stúdentspróf, sem dæmi.“

Hann segir að allt tengist því að þora og að hann sé mest stoltur af því.

Ljósmyndari: Einar Magnússon

„Annars gæti ég aldrei fundið stolt ef ég myndi ekki þora neinu.“

Að auka lífsgleðina hjá sér sjálfum og fólki í kringum sig. Það er Friðrik í hnotskurn. Hann segist annars vegar vera mikil svona „hálsakotstýpa“ og líður einna best undir sæng í hálsakotinu á manninum sínum.

Kemur alltaf skemmtilega á óvart
Í sumar hætti Friðrik í fastri vinnu hjá Listahátíð í Reykjavík og stofnaði sinn eigin rekstur. Hann segist alltaf vera að reka sig á eitthvað. Stundum kemur það honum skemmtilega á óvart, en annað leiðinlega, t.d. þegar hann uppgötvar eigin fáfræði eða fordóma og skammast sín fyrir að vera ekki kominn jafn langt og hann hélt.

„Það kemur alltaf skemmtilega á óvart hvað það er ótrúlega margt sem við getum lært og bætt hjá okkur sjálfum og sem samfélag. Það kemur mér samt stundum leiðinlega á óvart hvert við erum að stefna sem menningarsamfélag.“

Friðrik kveðst fyllast vanmætti við að vera á samfélagsmiðlum, en á sama tíma vera virkur þátttakandi á miðlunum. „Hræsnin uppmáluð!“ segir hann. Starfsvettvangur hans krefst þess að hann taki þátt á samfélagsmiðlum, nýti sig sjálfan sem eins konar markaðsvöru til þess að kynna allt það sem hann er að bralla.

„Ef ég myndi ekki gera það þá væri ég ekki að gera neitt.“

Allt þetta tal um áhrifavalda finnst honum vera komið út fyrir það sem orðið merkir raunverulega og finnst áhugavert að pæla í því hvert við erum að stefna.

 Notkun orðsins stuðar mig
„Að mínu mati eru áhrifavaldar frekar sölufulltrúar eða sérfræðingar í markaðssetningu á samfélagsmiðlum. Falleg módel t.d. sem selja vörur á netinu með samstarfi við ýmis fyrirtæki. Svo hefur það auðvitað áhrif á söluna – og það er líklegast ástæðan fyrir viðurnefninu áhrifavaldur. En mér finnst íslenska orðið svo sterkt; sé fyrir mér einhvern á borð við Vigdísi Finnbogadóttur – en að setja unga konu, hálfbera að selja brúnkukrem á Instagram setta undir sömu regnhlíf? Veit ekki alveg hvað mér finnst um það. Án þess að eitthvað sé að hinu síðarnefnda, mér finnst það bara vera annað dæmi. Það er kannski bara notkun orðsins sem stuðar mig.“

Lífið er fullt af erfiðleikum, áskorunum og áföllum, það fer enginn í gegnum lífið áfallalaust. Friðrik segir að erfiðasta tímabilið sitt hafi verið á unglingsárunum.

„Ég þurfti að vinna mig í gegnum kynferðisofbeldi, tvisvar sinnum á fáeinum árum og afleiðingum þess. Ég get svarað því núna, þar sem ég hef opnað mig opinberlega í þættinum Geðslagið. En ég hef aldrei talað um það opinberlega og ekki fundið sérstaka „þörf“ fyrir það. Kannski hef ég ekki þorað því af ótta við að verða dæmdur. Það er greinilegt að skömmin er einhvern veginn kúrandi undir allri sjálfsvinnunni sem maður hefur unnið sig í gegnum, undanfarin 15 ár eða svo.“

Hann fór til sálfræðings og næringafræðings sem unglingur. Það hjálpaði honum mjög mikið en það var samt líka honum sjálfum að þakka, að hann ákvað að hann skyldi lifa en ekki gefast upp.

„Það er undir mér komið að standa við þá ákvörðun og vinna vinnuna. Það kannski sökkar að þurfa að leggja alla þessa vinnu á sig, en hei! Ég er á lífi þrátt fyrir að hafa lent í þessu og á mér alls kyns drauma sem enginn óþokki fær að taka af mér.“

Hann glímir enn við afleiðingar áfallsins og segist sennilega munu gera það út allt lífið.  Hann kveðst þurfa að tækla mikið sjálfshatur, kvíða og óöryggi.

„Ég held að ég verði bara að taka einn dag í einu. Þetta er stöðug vinna, að halda geðinu í lagi ef maður hefur upplifað erfiða hluti, sem við gerum öll á einhverjum tímapunkti, bara með ólíkum hætti.“

Friðrik segist eiga auðveldara með að fyrirgefa gerendum sínum en sjálfum sér. Það var ekki fyrr en á síðasta ári að hann áttaði sig á að hann væri ennþá uppfullur af sjálfshatri og skömm gagnvart sjálfum sér, sem risti djúpt í honum. Í gegnum tíðina hefur hann verið svo dómharður og vondur við sjálfan sig í huganum. Í fyrra upplifði hann augnablik sem hann var búinn að bíða eftir lengi og það var sjálfsfyrirgefning. Frá því augnabliki finnst honum sem hann hafi „frelsast“ og eiga auðveldara með að glíma við sjálfan sig og aðstæður.

„Ég er búinn að fyrirgefa litla Frikkanum inni í mér sem vissi ekki betur en að dæma sig og vera með niðurrif. Þetta er það mikilvægasta sem ég hef gert í sjálfsvinnunni minni. Það er þessi andlega hreinsun sem fylgir fyrirgefningunni … og við tækluðum einmitt fyrirgefninguna í einum þætti af Geðslaginu.

Helstu áskoranirnar eru þær sem ég set fyrir sjálfan mig,“ segir Friðrik og bætir við að það sé enginn annar sem skemmir neitt fyrir sér nema maður sjálfur. „Þess vegna er svo mikilvægt að reyna tækla hvern dag og safna góðum dögum. Að taka góðar ákvarðanir sem byggja á kærleika en ekki ótta, það er mesta áskorunin að mínu mati — og í mínu lífi er það að passa að ég verði ekki minn helsti óvinur.“

Eftirminnilegt og dýrmætt
Friðrik hefur búið á fjölmörgum stöðum og flutt á milli ólíkra landa. Hann segir að það sé  einstaklega lærdómsríkt en fyrir utan Ísland þá hefur hann búið í Dúbaí, Ástralíu, Svíþjóð og á Ítalíu,

„Svona litlar minningar eins og að vinna í stórum danskeppnum, giftingardagurinn, sitja í garði í París og heyra tónlist í fjarska. Þessi litlu augnablik eru svo dýrmæt. Ég man t.d. eftir morgunsól úti á túni í Ungverjalandi í fyrra því ég var svo 100% í núinu þegar ég var staddur þar og það augnablik get ég framkallað hvenær sem ég vil. Það er eftirminnilegt og dýrmætt.“

Það sem stendur upp úr getur komið á óvart því lífið felst svo mikið í litlu augnablikunum sem fara of oft framhjá okkur. Friðrik hefur gert  margt stórt og jafnvel aðdáunarvert en það eru EKKI verkefni og metnaður sem skiptir mestu máli.

„Á endanum erum við öll bara mennsk. Það sem situr eftir eru þessi augnablik þar sem við finnum tengingu við náttúruna og annað fólk.“

Alls kyns spennandi verkefni eru á döfinni hjá Friðriki Agna sem tengjast menningu, vellíðan og ferðalögum, m.a. að halda utan um danshópa og taka gigg hér og þar. En nýju hlaðvarpsþættirnir hans með Sigursteini eiga hins vegar hug hans allan um þessar mundir.

Friðrik vonast til að fólk eigi eftir að hlusta á Geðslagið og tengja við það en umfram allt vonar hann að flestir átti sig á hversu mikilvægt það er að hugsa um heilsuna sína í heildrænum skilningi. Án þess að hann vilji hljóma eins og einhver predikari eða einhver sérfræðingur sem hann segist alls ekki  vera.

„Það skiptir ekki máli hvernig við lítum út eða hversu mörgum verkefnum við náum að fylgja eftir. Það sem skiptir máli er að spyrja sig hvort við séum gott fólk og hvort við séum heilbrigð? Það er fyrir mér það mikilvægasta af öllu. Það sem ég man alltaf eftir og ég vitna oft í er setning úr myndinni ALFIE, af öllum myndum. Þar segir aðalpersónan í lok myndarinnar að þú getir haft allt … en hafir þú ekki hugarró,  hvað hefurðu þá í raun veru?“

Friðrik tók þessi orð til sín sem unglingur. Hvernig öðlast ég hugarró? Hvað hann varðar felst það í að huga vel að sjálfum sér líkamlega og sálarlega. Og beita sömu hugulsemi gagnvart öllu í kringum sig. „Þá held ég að maður geti lifað án eftirsjár, án ótta og án samviskubits.“

Smelltu hér til að lesa brakandi og feskt helgarblað Mannlífs eða flettu því hér fyrir neðan:

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -