Frjósemi hefur aldrei verið minni á Íslandi og meðalaldur frumbyrja hækkar.
Frjósemi kvenna á Íslandi árið 2018 var minni en nokkru sinni áður og meðalaldur frumbyrja hélt áfram að hækka og var 28,2 ár, þetta kemur fram kemur á vef Hagstofu Íslands.
Árið 2018 var frjósemi íslenskra kvenna 1,707 börn á ævi hverrar konu og hefur hún aldrei verið lægri frá því að mælingar hófust árið 1853. Árið 2017 var frjósemi 1,710 en það er næst lægsta frjósemi sem mælst hefur hér á landi.
Þá hefur meðalaldur frumbyrja hækkað jafnt og þétt síðustu áratugi og eignast konur nú sitt fyrsta barn að jafnaði síðar á ævinni en áður.
Frá byrjun sjöunda áratugarins og fram yfir 1980 var meðalaldur frumbyrja undir 22 árum en eftir miðjan níunda áratuginn hefur meðalaldur farið hækkandi og var 28,2 ár í fyrra. Algengasti barneignaaldurinn er á milli 25–29 ára. Á þessu aldursbili fæddust 109 börn á hverjar 1.000 konur árið 2018.
Fæðingartíðni mæðra undir tvítugu var í fyrra 5,3 börn á hverjar 1.000 konur. Það er afar lágt í samanburði við tímabilið 1961-1965 þegar hún fór hæst, en þá fæddust 84 börn á hverjar 1.000 konur undir tvítugu.