Mikill fjöldi Úkraínumanna flýja nú land sitt vegna innrásar Rússa. Guðmundur Ingi Guðbrandsson félagsmálaráðherra fundaði með flóttamannanefnd síðasta föstudag vegna stöðunnar en fólk hefur neyðst til þess að flýja heimili sín í Úkraínu. Þá hefur nefndin það hlutverk að fylgjast vel með framvindu mála í samráði við önnur Evrópuríki, hin norrænu ríkin og Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Sérstakt eftirlit skal haft með aðstæðum á landamærum nágrannaríkja Úkraínu.
„Ef þróunin heldur áfram með þessum hætti finnst mér ekki ósennilegt að það komi beiðnir um að taka við flóttafólki hingað eða að stjórnvöld hér ákveði það,“ sagði Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður Framsóknarflokksins í viðtali við Morgunblaðið í dag en Stefán er einnig formaður flóttamannanefndar.
Stefán sagði að engar ákvarðanir hafi verið teknar um móttöku flóttamanna en hlutverk flóttamannanefndar er að annast móttöku kvótaflóttamanna en er það fólk sem stjórnvöld bjóða til landsins.