Föstudagur 15. nóvember, 2024
-1.2 C
Reykjavik

Fylgst með hverju skrefi í dauðastríði WOW

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Staða WOW air er með þeim hætti að fylgst er með hverri einustu flugferð sem félagið leggur í. Staða WOW gæti skýrst í dag en tvennt liggur fyrir, félagið þarf bæði á stórkostlegri afskrift skulda og milljarða króna innspýtingu til að halda rekstrinum gangandi.

Eftir að Icelandair gekk frá borðinu öðru sinni nú um helgina settu forsvarsmenn WOW í gang áætlun sem miðar að því að bjarga félaginu frá falli. Staðan er gríðarlega erfið. Morgunblaðið greindi frá því í dag að tap félagsins hafi numið 22 milljörðum króna og lausafjárstaðan er neikvæð um sem nemur 1,4 milljörðum. Áætlað er að það þurfi 10 milljarða til að halda félaginu á floti út árið.

Fréttablaðið segir WOW skulda um 24 milljarða króna, þar af er 2 milljarða króna skuld við ISAVIA vegna ógreiddra lendingargjalda. Samkvæmt heimildum blaðsins leitar ráðgjafarfyrirtækið Arctica Finance að 5 milljörðum króna til að bjarga WOW frá þroti.

Valdir ráðherrar ríkisstjórnarinnar funduðu í gær um stöðuna hjá WOW og til marks um það hversu alvarleg staðan er sat Michael Ridley, fyrrum ráðgjafi hjá JP Morgan þann fund. Síðast þegar stjórnvöld kölluðu hann til landsins riðaði íslenska bankakerfið til falls.

Skúli Mogensen, forstjóri WOW, sendi starfsfólki sínu bréf í gær þar sem hann sagðist vona að hægt yrði að koma félaginu fyrir vind. Að öðru leyti kom lítið fram í bréfi Skúla annað en að starfsfólk hafi boðist til að setja laun sín upp í hlutafé.

Það segir líka sitt um stöðu félagsins að fjölmiðlar fylgdust grannt með flugferðum félagsins í morgun og þótti það fréttnæmt að flest flug í morgun hafi verið á áætlun. Flugi til Gatwick var aflýst í morgun og flugi til Dublin var seinkað fram á kvöld. Ástæðan er sögð vera vélarbilun í Montreal, en fluginu þaðan í gærkvöldi var seinkað um sólarhring.

Svo kann að fara að fjöldi ferðalanga verði standaglópar fari svo að starfsemi félagsins verði stöðvuð. Samkvæmt túristi.is eru stjórnvöld ekki skuldbundin til þess að koma þeim Íslendingum heim sem eru erlendis á vegum WOW, ef þeir hafa einungis keypt flugmiða. Til þess þyrfti sértæka aðgerð af hálfu stjórnvalda.

- Auglýsing -

Þá gætu samgönguyfirvöld skorist í leikinn því eitt af skilyrðum til flugreksturs á Íslandi er að flugrekandi hafi fjárhagslegt bolmagn til að halda áfram rekstri. Samgöngustofa hefur fylgst grannt með gangi mála og samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hefur endurskoðandi á vegum stofnunarinnar haft starfsstöð á skrifstofu WOW um skeið. Viðræðurnar við Icelandair fóru fram undir þeim formerkjum að um fallandi félag væri að ræða.

Gengi krónunnar hefur veikst gagnvart öllum helstu myntum í morgun og öll hlutabréf í kauphöllinni hafa lækkað í morgun. Þar af hefur virði Icelandair lækkað um rúmlega 4 prósent.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -