Hlöðver Magnússon, fyrrverandi aðstoðarvarðstjóri lögreglunni gagnrýnir Matvælastofnun harðlega í viðtali við Vísi í morgun. Á hann þá við framgöngu stofnunarinnar gagnvart Ágústi Beinteini Árnasyni sem athygli hefur vakið vegna refs sem hann segist halda sem gæludýr.
„Ég skil ekkert í Matvælastofnun að hafa ruðst inn til greyið stráksins til að reyna taka af honum refinn,“ segir Hlöðver í viðtalinu en sjálfur átti Hlöðver um tíma refinn Kobba og þótti það ekkert tiltökumál á þeim árum. Kona hans, Ástríður Sveinsdóttir er sammála manni sínum. „Já, mér finnst það bara dónaskapur.“
Aðspurður hvort það hafi ekki verið jafn ólöglegt að eiga ref fyrir gæludýr árið 1993 og nú sagði Hlöðver það satt. „Jú, jú. En mikil skelfing, það var ekkert gert. Enginn sagði neitt og það höfðu bara allir gaman af honum Kobba. Og krakkarnir alveg sérstaklega.“
Hlöðver tekur fram að hann sé ekki að gagnrýna störf lögreglunnar. „Ég skal segja þér eitt að ég held að það sé nú fyrst og fremst Matvælastofnun. Fyrst og fremst. Sko, löggan fer í húsleit og allt í lagi með það. En að einhver frá Matvælastofnun komi vaðandi inn og inn í eldhússkápa og eitthvað… heldurðu að menn geymi þetta í eldhússkápum? Ég á bara ekki til orð yfir þessu.“
Ástríður segist ekkert sjá að þessu hjá Ágústi. „Ef þessum unga pilti þykir vænt um dýrið og fer vel með það. Þá finnst mér þetta allt í lagi. Það sakar engan. Ef hann er ekki fyrir neinum eða að gera neinum mein þá sé ég ekkert að þessu.“
„Þetta er bara eins og með kisur og voffa. Þetta er ósköp svipað,“ bætti Hlöðver við.
Sjá einnig: Matvælastofnun vill taka refinn af Ágústi: Gústi er gæðablóð sem á ekkert erindi í Húsdýragarðinn