Skúli Tómas Gunnlaugsson læknir, sem sætir lögreglurannsókn vegna gruns um að valda dauða sex sjúklinga sinna á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja árin 2018-2020, segist í nýrri Facebook-færslu vera borinn röngum sökum.
Skúli er sakaður um að hafa valdið dauða sjúklinganna með því að setja þau í tilefnislausar lífslokameðferðir.
Færsla Skúla fær töluverðan stuðning á Facebook frá fólki úr ýmsum áttum og ýmsum stéttum. Þarmá nefna Pál Matthíasson geðlækni og fyrrum forstjóra Landspítalans – hann var við stjórn þar á árunum 2013 til 2021.
Páll skrifar:
„Gangi þér sem allra best Skúli. Sú einhliða umfjöllun sem verið hefur í fjölmiðlum um þetta mál er því fréttafólki sem á bak við stendur til skammar – og Blaðamannafélaginu.“
Páll finnur meðal annars að því að Skúli Tómas hafi verið nafngreindur í umfjöllun fjölmiðla. „Blasir það ekki við að í svona viðkvæmum málum þá geta þeir heilbrigðisstarfsmenn sem undir ásökun sitja ekki tjáð sig? Væri þá ekki eðlilegra að bíða með umfjöllun -eða í það minnsta ekki nafngreina fólk? Eða er það aflagt að fólk sé saklaust uns sekt er sönnuð? – Þessi heygaflastemning á torgum ætti að tilheyra myrkri fornöld!“