Fimmtudagur 16. janúar, 2025
4.9 C
Reykjavik

„Fyrst og fremst ríkisstjórn aðgerðaleysis“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég held að þetta sé fyrst og fremst ríkisstjórn aðgerðaleysis,“ segir Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar í ítarlegu forsíðuviðtali Mannlífs sem kom út á föstudaginn.

Í viðtalinu segir Logi frá því að hann eygði tækifæri til að koma Samfylkingunni í ríkisstjórn því fljótlega eftir kosningar hóf hann stjórnarmyndunarviðræður við VG, Pírata og Framóknarflokk um ríkisstjórnarsamstarf. Þeim viðræðum var hins vegar slitið eftir þriggja daga viðræður og fór svo að VG fór í sæng með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki.

Logi segir þá niðurstöðu vonbrigði enda ekkert sem benti til annars á þeim tímapunkti en að flokkarnir væru samhuga.

Logi segir vonbrigðin að hafa ekki náð að mynda ríkisstjórn frá miðju og til vinstri sárari en ella í ljósi kjaraviðræðna sem nú standa yfir. Þar skipti aðkoma ríkisvaldsins miklu máli. „Það er auðvitað það sem skorti strax í stjórnarsáttmálanum fyrir ári síðan. Þá lá alveg fyrir að þessi vetur kæmi með þessum kröfum en ríkisstjórnin hefur ekki lagt neitt haldfast á borðið. Alvörufélagshyggjustjórn hefði forgangsraðað öðruvísi, svo sem með tekjuskiptu skattkerfi sem hlífir lágtekju- og meðaltekjufólki.“

Kannski snýst þetta um hagsmuni landbúnaðarins eingöngu en ekki hagsmuni neytenda.

„Ég hélt í sakleysi mínu og einfeldni að þetta væri nákvæmlega sama skattapólitík og Vinstri græn töluðu um fyrir kosningar. Ég hélt að það væri formsatriði að þessir flokkar tveir næðu að minnsta kosti saman um þetta. En kannski snýst þetta ríkisstjórnarsamstarf svo um eitthvað allt annað en hægri og vinstri. Kannski snýst það einmitt um íhaldssemi, um að viðhalda gömlum kerfum sérhagsmunahópa. Kannski snýst það um að viðhalda rétti útgerðarinnar til þess að sitja á sameiginlegri auðlind þjóðarinnar og nýta hana fyrir litla peninga. Kannski snýst þetta um hagsmuni landbúnaðarins eingöngu en ekki hagsmuni neytenda. Kannski snýst þetta um það að afneita því að stór og örugg mynt geti skilað ávinningi fyrir launafólk. Kannski skilur meira á milli Samfylkingarinnar og Vinstri grænna en ég í einfeldni minni hélt. Kannski eru þessir flokkar eðlisólíkir.“

Þetta aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar í kjaramálunum telur Logi vera einkennandi fyrir ríkisstjórnina. „Þau tala um að þau hafi siglt lygnan sjó og komið mörgum málum í gegn. Ég held að þetta sé fyrst og fremst ríkisstjórn aðgerðaleysis. Hún er ekki að taka á neinum málum, hún er að viðhalda kerfum en hún er ekki að gera neitt. Það er eitt ár rúmlega síðan þessi ríkisstjórn var stofnuð og það lá alveg fyrir að það þyrfti að fara í húsnæðisátak. Þess vegna fór Samfylkingin strax í að búa þær tillögur til en við vöknum upp við það árið 2019 að ríkisstjórnin er að ákveða einhvern starfshóp. Ég veit ekki af hverju. Mér finnst vera drollaraháttur á þeim, þau eru sein til verka og fyrst og fremst finnst mér þau vera vinna töluvert á forsendum stærsta flokksins í ríkisstjórninni, Sjálfstæðisflokksins.“

Hún er ekki að taka á neinum málum, hún er að viðhalda kerfum en hún er ekki að gera neitt.

Hvað væruð þið að gera öðruvísi ef þið sætuð í ríkisstjórn?

- Auglýsing -

„Við hefðum að sjálfsögðu ráðist í breytingar á skattkerfinu sem hefðu hlíft meðaltekju- og lágtekjufólki og lagt aðeins meiri álögur okkur betur stæðu. Við hefðum ráðist í meiri stórsókn í menntamálum, að sjálfsögðu hafið vinnu með öðrum flokkum um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu sem leiddu til þess að þjóðin fengi meiri og sanngjarnari arð af sameiginlegri auðlind. Við sjáum núna að veiðigjöldin eru lækkuð um um 3-4 milljarða en það er líka verið að lækka fé til hafrannsókna sem er undirstaða ekki bara efnhags okkar heldur lífríkis líka. Við hefðum útvíkkað gjaldmiðlanefndina og látið hana líka skoða hvaða hagsmunir gætu falist í því að  vera með aðra mynt en krónuna í staðinn fyrir að stinga hausnum í sandinn eins og strútur og segja „krónan skal það vera“. Það er svo margt sem við hefðum gert öðruvísi.“

Viðtalið við Loga má lesa í heild sinni hérna.

Mynd / Hallur Karlsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -