Nú styttist í tónlistarhátíðina Secret Solstice sem verður haldin í Laugardalnum dagana 21. til 24. júní. Hátíðin hefur verið í sífelldri þróun síðustu ár en í ár er gripið til nýbreytni þar sem sölustaðir á hátíðinni taka ekki við reiðufé. Í frétt á heimasíðu hátíðinnar stendur að hátíðin sé sú fyrsta á Íslandi með eingöngu snertilausar greiðslur.
Samkvæmt fréttinni verður ekki hægt að fá neitt keypt á hátíðarsvæðinu, hvorki mat né varning, nema með snertilausum greiðslum. Hátíðargestir geta greitt með sérstökum RFID-armböndum sem hægt er að fylla á fyrir hátiðina, eða á meðan henni stendur. Stendur í frétt á vef Secret Solstice að með þessari nýbreytni verði öll viðskipti á hátíðarsvæðinu einfaldari og hraðari.
„Það er okkar mat að langar biðraðir, að telja klink og ganga um með fullt af reiðufé í vösum ætti ekki að hindra þig í að njóta hátíðarinnar til fulls. Þannig að við vildum breyta því og verða fyrsta og eina hátíðin á Íslandi án reiðufés,” segir í fréttinni.
Þeir sem ætla á hátíðina geta farið inn á heimasíðu Secret Solstice og fengið leiðbeiningar um hvernig þeir eigi að fylla á fyrrnefnt armband, en hátíðargestir eru auðkenndir með miðanúmerinu sínu. Þannig geta gestir fyllt á inneign sína rafrænt og fylgst með eyðslu sinni á svæðinu á netinu.
Smellið hér til að lesa leiðbeiningar um þessa nýbreytni.