![](https://www.mannlif.is/wp-content/uploads/2021/10/Lydraedisstefna-RVK.-Mynd-1-300x200.jpg)
Tilgangurinn með lýðræðisstefnunni er að styðja við lýðræðislega þátttöku íbúa og greiða götu þeirra til þess að hafa meira áhrif á nærsamfélag sitt varðandi ákvarðanatöku og stjórnun sveitarfélagsins. Stefnan er líka stuðningur fyrir kjörna fulltrúa í því að þekkja óskir borgarbúa hverju sinni og byggja ákvarðanir sínar á grundvelli þeirra. Stefnan á að gera stjórnsýslu Reykjavíkurborgar betur kleift að sinna, undirbúa og framkvæma samráð í samvinnu við kjörna fulltrúa og íbúa.
Markmiðið er að endursegla hringrás lýðræðislegra vinnubragða, að hlusta, rýna, breyta og miðla, sem svo er útfært nánar í undirmarkmiðum. Sérstaklega er lögð áhersla á að efla gagnsæi, upplýsingamiðlun og lýðræðslega þátttöku ungmenna með nýjungum eins og Gagnsjá Reykjavíkur sem mun auka aðgengi að upplýsingum.
Þverpólitísku samstarfi fulltrúa allra flokka
Stefnunni fylgir metnaðarfull aðgerðaráætlun með mælanlegum markmiðum til næstu þriggja ára og hefur hún verið unnin í þverpólitísku samstarfi fulltrúa allra flokka í mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráði frá hausti 2019. Þannig skipa sex fulltrúar stýrihópinn, jafn margir frá meirihluta og minnihluta í stað oddatölu sem venjan er, enda hefur verið lögð mikil áhersla á gott samstarf og sátt milli flokka. Drög að lýðræðisstefnu sem lágu fyrir við lok síðasta kjörtímabils hafa nýst sem mikilvægt gagn við vinnuna.
,,Lýðræðisstefnan snýst um að byggja upp traust um þær ákvarðanir sem eru teknar, efla upplýsingagjöf til íbúa og auka aðkomu þeirra. Lýðræðisleg og vönduð umfjöllun um málefni bætir gæði ákvarðanna og það færir okkur betri borg,“
segir Dóra Björt Guðjónsdóttir, formaður mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs Reykjavíkur sem jafnframt er formaður stýrihópsins.
Samráðsferli aðgengilegt öllum
Með þessari stefnan verður byggt meira samráðsferli þar sem lögð er áhersla á auðvelt aðgengi óháð fötlun, stöðu og tungumálakunnáttu í víðtæku samtali um lýðræði og þátttöku í Reykjavík.
Það er mannréttinda,- nýsköpunar og lýðræðisráð sem ber ábyrgð á lýðræðisstefnu Reykjavíkurborgar. Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa vinnur að markmiðum stefnunnar og gegnir leiðbeinandi hlutverki. Hún fylgir einnig eftir aðgerðaráætlun stefnunnar í samstarfi við svið og skrifstofur borgarinnar.
Hægt er að sjá meira um stefnuna hér.