„Ég hitti ömmu mína á föstudegi og fór í búð áður. Ég hef örugglega bara smitast af rjómafernunni sem ég keypti eða einhverjum snertifleti,“ segir Gabríela Birna Jónsdóttir, 24 ára íþrótta- og heilsufræðingur úr Reykjavík, sem greindist með COVID 19 þann 1. ágúst. Hún er barnshafandi og átti aðeins eftir hálfan mánuð af meðgöngunni.
Gabríela Birna segir í samtali við Mannlíf að hún hafi í fyrstu talið að veikindi og hiti sem hún fann fyrir á mánudegi tengdust meðgöngunni.
„Ég varð mjög slöpp, fékk hita, beinverki og höfuðverk en hélt fyrst að þetta væri eitthvað óléttutengt. Ég hafði svo samband við heilsugæsluna en okkur grunaði að ég væri að fá meðgöngueitrun en af því að blóðþrýstingurinn var í lagi þá voru þau ekkert að stressa sig á því,“ segir Gabríela.
Missti bragðskynið
Henni var sagt að hvíla sig en einkennin fóru hratt versnandi. Hún svaf allan næsta dag. „Svo lækkaði hitinn og ég var hitalaus um kvöldið. Þá fór mér strax að skána en ég fékk ennþá hausverk af og til,“ segir hún.
Á miðvikudeginum missti Gabríela bragð- og lyktarskyn og fór þá að gruna að hún væri COVID smituð. Hjúkrunarfræðingur boðaði hana í sýnatöku sem leiddi í ljós að grunsemdir Gabríelu eru réttar. Hún reyndist smituð. Gabríelu segist hafa verið brugðið þar sem lítið væri vitað um áhrif COVID á ófætt barn. En hreyfingar barnsins voru eðlilegar og sló það á áhyggjur hennar af ófæddum syni sínum.
„Hann hreyfði sig á fullu. Ég var líka búin að lesa mér til um að þetta hefði engin áhrif svona í lok meðgöngunnar,“ segir hún.
Óttast mest að fæða í einangrun
Gabríelu var skipað að fara í tveggja vikna einangrun ásamt unnusta sínum sem reyndist einnig smitaður. Lokadagur einangruninnar er sá sami og settur fæðingardagur sonar þeirra. Næstu daga tók við mikið ferli við að rekja smitið. Amma Gabríelu smitaðist einnig af sjúkdómnum og eru einkenni þeirra sambærileg. Gabríela segist óttast mest að fara af stað í fæðingu áður en hún klárar einangrun, þurfa að vera ein á þessum stóra degi og að unnusti hennar missi af fæðingu barnsins þeirra. „Ég var búin að sjá þetta allt fyrir mér og var spennt fyrir að sjá hann upplifa fæðinguna.“
Gabríela hefur almennt verið jákvæð í gegnum þetta ferli og gert það sem hún getur til að gera lífið sem bærilegast. „Í rauninni er ekkert sem ég get gert til þess að stjórna því hvernig þetta fer. Ég þarf bara að taka þessu eins og það kemur.“
Dóttirin slapp
Gabríela segir það hafa verið erfitt að vera frá þriggja ára dóttur sinni í einangruninni. Hún slapp við smit og dvelur hjá ættingjum þar til móðir hennar losnar úr einangrun.
„Hún er búin að taka þessu furðuvel en hún saknar okkar og spyr hvort við séum núna hætt að vera lasin.“
Gabríela, unnusti hennar, ættingjar og vinir liggja nú á bæn og vonast til að barnið bíði með komu sína þar til einangrun er lokið. Hún vonast til þess að ganga fram yfir settan fæðingadag barnsins síns. Það er mjög sérstakt eins og reyndar að þunguð kona smitist á seinustu metrum meðgöngunnar.
Texti / Harpa Mjöll Reynisdóttir