Miðvikudagur 30. október, 2024
4.5 C
Reykjavik

„Gáfulegasta sem ég hef gert í lífinu“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Telma Rut Einarsdóttir segir þátttökuna í björgunarsveitum hafa kennt sér mikið og gefið sér aukið sjálfstæði.

Flugneminn Telma Rut Einarsdóttir hefur starfað með Björgunarsveit Hafnarfjarðar í níu ár eða frá því hún byrjaði á nýliðanámskeiði aðeins 17 ára gömul. Hún mælir með þátttöku í björgunarsveitum fyrir alla sem hafa áhuga á útivist og góðum félagsskap.

„Þegar ég var yngri voru foreldrar mínir duglegir að fara með mig í útilegur og fjallaferðir. Það má næstum segja að ég hafi alist upp í útilegum og á fjöllum, ég er ekki nema sex vikna gömul á fyrstu myndinni sem var tekin af mér uppi á jökli. Þannig að þetta blundaði alltaf óbeint í mér,“ svarar Telma þegar hún er spurð hvers vegna hún ákvað að fara í björgunarsveitastarf.

„Mér var svakalega vel tekið þegar ég byrjaði en það er eitt af því sem mér finnst best við björgunarsveitirnar, öllum er tekið eins og þeir eru. Það er mjög breiður hópur af fólki sem starfar í björgunarsveitunum og allir geta unnið saman sem er alveg ótrúlega flott að sjá. Þetta bara virkar einhvern veginn þegar á reynir.

Nýliðanámskeiðið var að meðaltali aðra hverja helgi auk nýliðakvölda á miðvikudögum þar sem voru ýmis stutt námskeið, fjallgöngur, spottakvöld, klifur eða annað sem okkur datt í hug.“

Ómetanlegur félagsskapur

Telma segist á þessum tíma hafa lært mikið um útivist, hvernig eigi að haga sér á fjöllum, hvernig eigi að bjarga sér og öðrum og gera hlutina með lágmarksáhættu. „Þetta hefur einnig gefið mér aukið sjálfstæði, getu til að fara lengra og gera meira en ég hefði annars gert. Og svo ég verði nú aðeins væmin þá er félagsskapurinn ómetanlegur og ég hef kynnst mínum bestu og traustustu vinum í björgunarsveitinni. Fólkið þarna er alltaf til staðar, alltaf til í að hjálpa þegar eitthvað bjátar á og ég hef fundið mjög sterkt hvað allir standa þétt við bakið á manni. Þessi andlegi stuðningur og eining þurfa að vera til staðar til að skapa góða björgunarsveit, en eru alls ekki sjálfgefin.“

- Auglýsing -

Félagsstarfið í björgunarsveitunum er fjölbreytt. Til dæmis eru björgunarleikarnir haldnir annað hvert ár samhliða landsþingi. „Þar er keppt í ýmsum greinum, eins og böruburði í gegnum þrautabraut, sigi, rústabjörgun, rötun, tappa í dekk og draga bíla, ökuleikni, pönnukökubakstri, björgunarsundi og fleira í þeim dúr. Í fyrra skiptið sem ég keppti settum við stelpurnar saman lið sem við kölluðum Team Barbie, svona upp á grínið, en svo vantaði okkur einn upp á til að fylla liðið og enduðum á að fá „Ken“ með okkur í lið. Svo tók ég síðast þátt með öðru liði sem endaði í þriðja sæti á leikunum, en það eru yfir tuttugu lið alls staðar af landinu sem keppa sín á milli. Mæli sérstaklega með þessu fyrir nýliða, að setja saman lið og sjá hvað þið getið,“ segir Telma.

Enginn fer í útkall nema treysta sér til

- Auglýsing -

Verkefnin sem farið er í eru mismunandi og miserfið. „Við förum í hvert verkefni fyrir sig og leysum eins vel og við getum. Ef við gerum rétta hluti líður okkur yfirleitt vel þótt útkallið geti verið erfitt. Ég á vini í sveitinni sem hafa lent í erfiðum útköllum, til dæmis að sækja látið fólk og það tekur auðvitað á. En þar kemur liðsheildin inn og við pössum okkar fólk og höfum aðgang að sálfræðingi ef á þarf að halda til að vinna úr svona málum. Svo er líka vert að taka fram að við erum sjálfboðaliðar og þar af leiðandi ákveðum við sjálf hvort við förum í útkall eða ekki. Það er enginn settur í útkall nema hann treysti sér til og telji sig hafa getu og kunnáttu til að takast á við það. Í hvert skipti sem við fáum útkall með SMS-skilaboðum þarf fyrst að hugsa: Treysti ég mér í þetta verkefni og hef ég kunnáttu til að hjálpa í þessum aðstæðum? Ef svarið er já, er hægt að hlaupa af stað.“

„Ef við gerum rétta hluti líður okkur yfirleitt vel þótt útkallið geti verið erfitt.“

Björgunarsveitirnar um land allt hafa verið að halda kynningarfundi fyrir nýliða þar sem hægt er að fá frekari upplýsingar. „Ég mæli hiklaust með því að mæta og sjá hvort þetta sé eitthvað sem þú hefur áhuga á. Þetta er allavega eitthvað það gáfulegasta sem ég hef gert í lífinu.“

Myndir / Úr einkasafni

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -