Hryllingsmyndin Hereditary, í leikstjórn Ari Aster, var frumsýnd á Sundance-kvikmyndahátíðinni og hafa viðbrögðin ekki látið á sér standa.
Myndin, sem skartar leikurunum Toni Collette, Gabriel Byrne og Ann Dowd í aðalhlutverkum, kemur í kvikmyndahús næsta sumar og fjallar um Annie, sem grunar að yfirnáttúrulegir kraftar hafi heltekið húsið hennar. Hún þarf að kanna það sem býr í myrkrinu til að komst undan hræðilegum örlögum.
Gagnrýnandi The Hollywood Reporter segir að myndin sé tveir klukkutímar af hryllingi sem vindur uppá sig en gefur ekki eftir í eina mínútu. Gagnrýnandi Variety segir að myndin fjalli um mest ógnvekjandi draug allra tíma: andana innra með okkur. Þá segir gagnrýnandi USA TODAY að þetta sé hræðilegasta hryllingsmynd síðari ára.
Við hjá Mannlífi erum strax orðin mjög spennt að sjá myndina, sem hefur fengið lof gagnrýnenda þó hryllileg sé. Hafa sumir meira að segja gengið svo langt að segja að Toni Collette gæti hreppt Óskarsverðlaunin á næsta ári fyrir leik sinn í myndinni.
Gagnrýnandinn Aaron Morgan hvetur fólk á Twitter-síðu sinni til að sleppa því að horfa á stiklu fyrir myndina og horfa frekar á hana án þess að vita nokkurn skapaðan hlut. Við stóðumst samt ekki mátið, horfðum á stikluna og erum nú enn spenntari.
DO NOT WATCH THE #Hereditary TRAILER! Massive spoiler shots. Go in cold to this movie, trust me!
— Aaron Morgan (@Aaron_Morgan) January 30, 2018
Við látum stikluna fylgja með hér að neðan ef einhver vill byrja að hita upp fyrir sumarið:
Texti / Lilja Katrín
[email protected]