Gunnella Ólafsdóttir og Laufey Jensdóttir sýningarstjórar settu saman áhugaverða samsýningu 20 ólíkra myndlistarmanna sem allir tengjast Galleríinu á Skólavörðustíg 20. Sýning Gallerísins er fyrsta sýningin sem haldin er í sérhönnuðum sýningarsal í húsnæði sem flestir þekkja sem gömlu kartöflugeymslurnar í Ártúnsbrekku og er sýningarsalurinn að austanverðu við bogabyggingarnar og tengir þær saman.
Galleríið var opnað á haustdögum 2019 og hefur lagt upp með að skapa sér sérstöðu með framboði verka ólíkra myndlistarmanna og hefur síðan fengið góðar undirtektir. Innan raða þeirra er bæði að finna vel þekkta listamenn sem hafa náð langt á sínum ferli og einnig listamenn af nýrri kynslóð sem hafa vakið verðskuldaða athygli fyrir sína list strax í upphafi ferils síns. Sýningin samanstendur því af fjölbreyttum listformum: þar verða olíumálverk, vatnslitaverk, grafík, ljósmyndir, skúlptúrar, prentverk og hönnun.
Markmið Gallerísins með sýningunni er að útvíkka sýnileika Gallerísins og gefa þeim
myndlistarmönnum sem eru í samstarfi við það eftirtektarvert tækifæri til aukinnar kynningar með ferskum stórviðburði í sögufrægu húsnæði.
Verkin eru langflest unnin sérstaklega fyrir Sýninguna og lagði sýningarstjórn upp með að verkin væru í stærri kantinum þar sem sýningarrýmið býður upp á það.
Hver myndlistarmaður fékk fullt frelsi til sinnar sköpunar og mun því fjölbreytileikinn vera einkennandi á Sýningunni. Titill sýningarinnar er einfaldlega „Sýningin“ sem sýnir bæði húmoríska skírskotun í einfaldleikinn og segir allt sem segja þarf þegar gallerí tekur sig til og heldur myndlistarsýningu. Það er einnig samsvörun í heiti Gallerísins – einfaldlega „Galleríið heldur Sýninguna.“
Sýningarsalurinn í kartöflugeymslunum var upphaflega reistur í Hvalfirði sem sprengjugeymsla fyrir herskip Bandaríkjamanna í síðari heimsstyrjöldinni en eftir stríð var hún flutt á núverandi stað og nýtt sem kartöflugeymsla í áratugi. Byggingin hefur nú verið endurbyggð frá grunni og byggt hefur verið við hana en framhlið húsanna heldur sér.
„Það er mikil áskorun og vinna að koma upp svo stórri sýningu margra, ólíkra myndlistarmanna en þetta er einstaklega áhugavert sýningarhúsnæði sem býður upp á marga möguleika,“ segir Gunnella okkur en „það ríkir mikil tilhlökkun í hópnum yfir að fá tækifæri til að taka á móti gestum sýningarvikuna 23.-31. október.“
Sýningin verður opnuð laugardaginn 23. október, kl. 14-18 og verða léttar veitingar á boðstólum.
Sýningin verður síðan opin milli kl. 12-18 alla daga til og með 31. október.
Facebook: Galleríið
Sýnendur eru:
Árný Björk Birgisdóttir
Charlotta María Hauksdóttir
Erna Jónsdóttir
Gunnella
Harry Bilson
Íris Auður Jónsdóttir
Jón Baldur Hlíðberg
Jón Þorsteinsson frá Ljárskógum
Karl Jóhann Jónsson
Kristín Hálfdánardóttir
Kristjana S. Williams
Kolbrún Friðriksdóttir
Laddi
Laufey Jensdóttir
Margrét Erla Júlíusdóttir
Margrét Laxness
Óskar Thorarensen
Sara Vilbergs
Tinna Royal
Vilborg Gunnlaugsdóttir