Miðvikudagur 20. nóvember, 2024
-4.5 C
Reykjavik

Gaman að hitta íslenska aðdáendur

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Midgard-ráðstefnan hefst í dag í Fífunni í Kópavogi og stendur yfir alla helgina. Heiðursgestur hátíðarinnar að þessu sinni er enginn annar en nýsjálenski leikarinn og Íslandsvinurinnn Manu Bennet sem hefur meðal annars farið með hlutverk í sjónvarpsþáttunum Spartacus og Arrow og þríleik Peter´s Jackson um Hobbitann.

 

„Þetta er kannski pínku yfirdrifið, eins og persóna mín úr þáttunum Arrow segði, en ég hef gaman af þessu,“ segir Manu, spurður að því hvernig sé að vera heiðursgestur hátíðarinnar.

Fyrirmyndin að Midgard er bandaríska Comic Con-ráðstefnan sem gestir víðs vegar að úr heiminum sækja árlega til að hlusta á pallborðsumræður með leikstjórum, myndasagnahöfundum, leikurum og fleirum og hitta á átrúnaðargoðin sín og fólk með nördaleg áhugamál, stundum uppáklæddir í alls kyns skrautlega búninga sem endurspegla áhugamálin. Þetta er í annað sinn sem Midgard fer fram á Íslandi og í fyrsta sinn sem heiðursgesturinn Manu mætir á svæðið.

„Þetta er kannski pínku yfirdrifið, eins og persóna mín úr þáttunum Arrow segði, en ég hef gaman af þessu.“

„Já, þetta er í fyrsta skipti sem ég kem,“ segir hann auðheyrilega spenntur en flýtir sér að bæta við að þetta sé þó langt frá því að vera fyrsta hátíðin af þessu tagi sem honum er boðið á. „Mér er reglulega boðið á svona hátíðir um allan heim og ég hef mætt á þónokkrar enda ríma þættirnir og myndirnar sem ég hef leikið í vel við poppkúltúrinn sem þær hverfast um.“

Manu Bennet er heiðursgestur Midgard í ár, en Manu er best þekktur fyrir hlutverk sín sem skylmingaþrællinn Crixus í þáttunum Spartacus, sem illmennið Slade Wilson/Deathstroke í Arrow, presturinn Allanon í The Shannara Chronicles og Azog, foringi Orka, í þríleiknum um Hobbitann.

Og hvað er það sem fær þig til að ferðast, jafnvel á milli heilu heimsálfana, á svona hátíðir? „Ja, mér finnst til dæmis skemmtilegt að kynna mér innlenda listamenn og skoða hvers konar myndir og þætti er verið að framleiða á staðnum. Það er nefnilega margt líkt með þessum hátíðum þótt löndin séu ólík. Fókusinn er oft á bandaríska framleiðslu vegna áhrifa frá Hollywood og Netflix. Þess vegna finnst mér gaman að skoða framleiðsluna sem er í gangi á staðnum. Ég er nefnilega þeirrar skoðunar að meiri fjölbreytni þurfi í handritsgerð, svo sögurnar verði ekki allar eins; allar undir einhverjum amerískum áhrifum.“

Hann bætir við að einna skemmtilegast sé síðan auðvitað að fá tækifæri til að hitta aðdáendur sína. „Sumt fólk mætir til að hitta átrúnaðargoðin sín og kynnast þeim aðeins. Aðrir eru kannski að vinna í einhverri list og vilja leita ráða, nú eða einfaldlega fá faðmlag eða sjálfu með manni sem þeir geta birt á samfélagsmiðlum. Þannig að maður þarf að búa sig undir að vera heiðarlegur og mjög opinn,“ segir hann kíminn.

- Auglýsing -

Fær innblástur á Íslandi

Þótt þetta sé í fyrsta sinn sem Manu mætir á Midgard hefur hann komið til landsins áður, margoft reyndar, og eignast hér góða vini. Einn af þeim er handritshöfundurinn Silla Berg en frá árinu 2017 hafa þau Manu verið að vinna saman að gerð myndarinnar Over the Volcano, sem byggir að einhverju leyti á sjóslysi frá árinu 1982 en þá fórst belgíski togarinn Pelagus austan við Vestmannaeyjar. Myndin er ekki eina verkefni Manu sem er með Íslandstengingu því hann er einnig að skrifa handrit um raðmorðingjann illræmda Axlar-Björn. Spurður út þennan mikla áhuga á Íslandi, segist hann einfaldlega vera heillaður af landi og þjóð. Ísland kveiki í sögumanninum í sér og hann ætli einmitt að verja hluta heimsóknarinnar núna í skrif.

En ætlar hann ekkert að gera annað en að taka þátt í Midgard og vinna meðan á heimsókninni stendur? „Jú, jú, ég ætla meðal annars að hitta einn af bestu vinum mínum, Víking Heiðar Arnórsson, við æfum í sömu ræktinni hérna og svo ætla ég að skella mér út að borða á Sushi Social,“ segir hann og eftirvæntingin leynir sér ekki.

- Auglýsing -

Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -