Leikkonan Jördis Richter landaði hlutverki í hinum vinsælu sjónvarpsþáttum Fortitude.
„Fortitude er einn af mínum uppáhaldssjónvarpsþáttum um þessar mundir þannig að ég varð ótrúlega glöð að heyra að ég hefð hreppt hlutverkið,“ segir Jördis. „Reyndar var ég kölluð í áheyrnarprufu fyrir allt annað hlutverk, sem kom svo á daginn að hæfði mér alls ekki og þá buðu framleiðendurnir mér þessa rullu. Þeir vildu bara ólmir fá mig í þættina.“
Í Fortitude fer Jördis með hlutverk nýrrar persónu, Trudy, barþjóns í bænum sem hún lýsir í stuttu máli sem einskonar sáluhjálpara. Hún viðurkennir að það hafi verið svolítið skrítið að koma ný inn í þættina á þriðju og síðustu seríu en sér hafi verið afskaplega vel tekið af öllum í tökuliðinu. Það sé gaman á setti og lærdómsríkt að leika á móti stórstjörnum á borð við Dennis Quaid.
„Reyndar var ég kölluð í áheyrnarprufu fyrir allt annað hlutverk, sem kom svo á daginn að hæfði mér alls ekki og þá buðu framleiðendurnir mér þessa rullu. Þeir vildu bara ólmir fá mig í þættina.“
„Dennis er almennilegur og fyndinn náungi og það er gaman að fylgjast með honum leika. Leikararnir eru bara allir æðislegir,“ lýsir hún og bætir við að uppáhaldspersónan hennar í þáttunum sé drykkfelldi lögreglustjórinn Dan Anderson sem er leikinn af írska leikaranum Richard Dormer. „Meðal annars af því að það er svo áhugavert að fylgjast með Richard að störfum,“ útskýrir hún. „Hvað hann á auðvelt með að detta í og úr karakter og hvernig hann beitir röddinni, það er ótrúlega áhugavert að verða vitni að því. Það veitir manni svo mikinn innblástur.“
Jördis, sem er þýsk en hefur verið búsett á Íslandi síðustu ár, er alls engin nýgræðingur þegar kemur að spennuþáttum því hún hefur meðal annars farið með hlutverk lögreglukonu í vinsælli þýskri sjónvarpsseríu, Komissarin Lucas, og segist í gríni því vera orðin vön því að vera innan um gerviblóð og lík. Það sem Fortitude hafi hins vegar umfram aðra spennuþætti sem hún hefur leikið í sé hvað framleiðslan er dýr og vönduð. Meira að segja byssurnar eru raunverulegri en hún á að venjast. „Og það er alltaf verið að draga fram riffla,“ segir hún og hlær.
Hún bendir á að kostirnir við svona stóra framleiðslu séu fleiri. „Til dæmis fáum við öll lengri tíma til að kynnast og vinna hlutina saman sem gerir vinnsluna þægilegri. Svo er eitt af því skemmtilega við þetta verkefni hvað þættirnir fá góða dreifingu, því eftir því sem þeir eru sýndir víðar eru meiri líkur á að fleiri sjái þá. Og leikarar kunna auðvitað alltaf að meta aukinn sýnileika.“