Miðvikudagur 11. desember, 2024
6.8 C
Reykjavik

Gaman að upplifa jól og áramót á Íslandi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hulda Guðnadóttir segir að ættleiddur sonur sinn geti ekki beðið eftir að upplifa jól og áramót.

Hulda Guðnadóttir og Jón Hafliði Sigurjónsson með börn sín Baldur Hrafn Jhon og Nínu Dýrleifu.

Seint á síðasta ári sóttu hjónin Hulda Guðnadóttir og Jón Hafliði Sigurjónsson ættleiddan son sinn Baldur Hrafn til Kólombíu en fyrir áttu þau eina líffræðilega dóttur. Þau segja að börnin séu full tilhlökkunnar vegna hátíðarhaldanna sem fram undan eru. Baldur geti hreinlega ekki beðið eftir að upplifa íslensk jól og áramót.

„Við erum bara mjög kát,“segir Hulda, spurð að því hvernig jólin og áramótin leggist í fjölskylduna. „Það er kannski ívið meiri spenningur núna en í fyrra, enda báðir krakkarnir orðnir stálpaðri og meðvitaðri um hvað er í gangi. Nína Dýrleif á þriðja aldursári og Baldur Hrafn Jhon nýorðinn fjögurra ára svo að nú eru þau spennt að fá í skóinn, spennt að fá pakka og bara spennt fyrir þessu öllu.“

Að sögn Huldu verða þetta önnur jólin og áramótin sem fjölskyldan ver saman en það var seint í október á síðasta ári sem þau hjónin sóttu Baldur Hrafn til Kólombíu. „Þetta var allt saman mikið ævintýri, bæði erlendis og svo fyrst eftir heimkomu. Til dæmis er ógleymanlegt fyrsta skiptið sem Baldur leit út um gluggann og sá snjó. Augun urðu bara eins og tvær undirskálar. Hann vissi ekkert hvað þetta var.“

„Þetta var allt saman mikið ævintýri, bæði erlendis og svo fyrst eftir heimkomu. Til dæmis er ógleymanlegt fyrsta skiptið sem Baldur leit út um gluggann og sá snjó. Augun urðu bara eins og tvær undirskálar. Hann vissi ekkert hvað þetta var.“

Hulda segir að undrunin hafi ekki orðið minni á jólunum þegar kom að því að opna gjafir. „Það var greinilegt að Baldur hafði ekki fengið marga pakka áður því hann varð mjög æstur og fór svo að gráta þegar hann var búinn að opna síðasta pakkann. Hann skildi bara ekkert í því að þeir skyldu „klárast“.“

Myndirðu segja að líf ykkar hjóna hafi breyst mikið með tilkomu barnanna? „Já. Við vorum búin að vera barnslaus í nokkurn tíma þannig að þetta voru mikil viðbrigði fyrir okkur, til dæmis að upplifa jólin með krökkunum í fyrra. Næstum eins og að verða sjálfur barn á nýjan leik. Að eignast börnin breytti öllu til hins betra.“

Hvernig verður svo hátíðarhöldunum háttað hjá ykkur í ár? „Við ætlum að bjóða nágrönnum og nánustu ættingjum hérna á Reyðarfirði í skötu á Þorláksmessu. Á aðfangadag kemur svo mamma í mat og um áramótin ætlum við með börnin á brennu. Við tókum upp á því eftir að þau komu bæði til sögunnar og þar sem þau eru nú orðin stærri held ég að það verði enn skemmtilegra í ár,“ segir Hulda glaðlega.

- Auglýsing -

Texti / Roald Eyvindsson
Aðalmynd: Systkinin Baldur Hrafn Jhon og Nína Dýrleif.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -