Alþjóðaheilbrigðisstofnunin WHO hefur gefið út að ríki heims yrðu að búa sig undir „mögulegan alheimsfaraldur“ vegna COVID-19.
Yfirvöld hér á landi hafa gert ýmsar ráðstafanir til að efla varnir vegna útbreiðslu kórónuveirunnar COVID-19. Landspítalinn hefur t.d. tekið í notkun gámaeiningu bráðamóttökuna í Fossvogi. Gámaeiningin verður notuð til að bregðast við ef komi upp kórónaveirusmit hér á landi og þá til að koma í veg fyrir að smitaðir komist í snertingu við aðra sjúklinga spítalans.
Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir bráðalækninga á Landspítalanum, sagði í samtali við mbl.is að til viðbótar við gáminn hafa verið gerðar breytingar á smitsjúkdómadeildinni vegna útbreiðslu COVID-19.
Þurfa ekki inn á biðstofur
Á vef Landlæknis kemur fram að er einstaklingur fær einkenni COVID-19 sýkingar ber honum að hafa samband símleiðis við síma Læknavaktarinnar 1700 og fylgja frekari fyrirmælum.
Gámaeiningin við bráðamóttökuna er þá hugsuð sem móttaka og sóttkví fyrir þá sjúklinga sem grunar að þeir séu smitaðir af COVID-19 sýkingu. Þannig þurfa þeir sjúklingar ekki að fara í gegnum biðstofur spítalans.
„Sóttkví er notuð þegar einstaklingur hefur mögulega smitast af sjúkdómi en er ekki enn þá veikur sjálfur. Einangrun á við sjúklinga með einkenni smitandi sjúkdóms,“ segir á vef Landlæknis.
Sjá einnig: Segir stöðuna hafa breyst skyndilega yfir helgina