Bæjarráð Garðabæjar samþykkti í gær að afþakka jólatré að gjöf frá vinabænum Asker í Noregi, en tréð í ár hefði orðið það fimmtugasta í röðinni.
„Við vorum búin að vera að velta þessu fyrir okkur lengi og þegar við vöktum máls á þessu við vini okkar í Asker voru þau búin að vera að velta þessu fyrir sér líka,“ segir Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar við Fréttablaðið. Ástæðan er breyttar áherslur í loftslagsmálum, minnkandi kolefnisspor og tákrænni í umhverfismálum.
„Nú förum við bara á stúfana og finnum fallegt jólatré í Heiðmörk eða jafnvel í görðum bæjarbúa,“ segir hann. „Stundum hafa íbúar óskað eftir því að losna við grenitré úr garðinum sínum og það má vel vera að það dúkki eitthvað slíkt upp.“