Samkvæmt frétt Fréttablaðsins fær Reykjanesbær hæsta heildarframlag úr Jöfnunarsjóði fyrir árið 2022, um það bil 2,5 milljarða. Séu útgjaldajöfnunarframlög ein og sér skoðuð fá fjölkjarnasveitarfélög hæstu upphæðirnar. Þar trónir Múlaþing á toppnum, fær 713 milljónir króna, Skagafjörður er svo í öðru sæti með 589 milljónir og Borgarbyggð er í þriðja sæti með 543 milljónir króna.

Íbúar Garðabæjar greiða miklu lægra útsvar en Reykvíkingar en þeir fá framlag til grunnskólanna sem Reykjavíkurborg fær ekki. Garðbæingar greiða 13,7% útsvar en Reykvíkingar 14,52%. Stofnuð var nefnd árið 2017 sem lagði fram tillögu sem snéru að því að ef sveitarfélag nýtti ekki útsvarshlutfall sitt að fullu ætti að skerða á móti framlög úr Jöfnunarsjóði sem næmi vannýttum útsvarstekjum. Ekki náði tillagan brautargengi. Í Fréttablaðinu er rætt við sveitarstjórnarfólk sem þykir málið ósanngjarnt en til að mynda fær Garðabær 644 milljónir úr Jöfnunarsjóði árið 2022.

„Ég hef ríkan skilning á að sumum sveitarstjórnarmönnum þyki sérkennilegt að þegar útsvarsstofn er ekki fullnýttur fái sveitarfélögin á sama tíma greiðslur úr Jöfnunarsjóði,“ segir Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands sveitarfélaga.

- Auglýsing -

Segir hún ennfremur að það verði að vera jöfnuður þó tekist sé á um fjárveitingar. Það mikilvægasta í þessu sé að sveitarfélögin vanti meira fé til að sinna lögbundnum skyldum sínum. Segir hún að ágæt sátt sé um það á landinu að þjónusta eigi að vera með sviopuðum hætti ótengt búsetu fólks.

„Það er erfitt að búa til kerfi sem allir geta sætt sig við, en það er mikilvægt að fólk geri sér ljóst að tekjumöguleikar sveitarfélaga eru mjög mismunandi. Kannski er það ekki besta meðferð opinbers fjár ef tekjur sem sveitarfélagið getur aflað eru felldar niður.“

 

- Auglýsing -