Föstudagur 15. nóvember, 2024
-1.2 C
Reykjavik

Sýður upp úr í Garðabæ: „Samið án útboðs við fyrirtæki í eigu forseta bæjarstjórnar“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Komið hefur á daginn að meirihlutinn í bæjarstjórn Garðabæjar samþykkti að ganga til samninga án útboðs við fyrirtækið Terra, áður Gámaþjónustan, um leigu og forkaupsrétt á gámaleikskóla, en forseti bæjarstjórnar Garðabæjar, Björg Fenger, á stóran hlut í Terru.

Þrátt fyrir að Garðabæjarlistinn, sem er í minnihluta í bæjarstjórn Garðabæjar, lýsti yfir furðu sinni á afgreiðslu málsins og mótmælti kröftuglega, samþykkti meirihlutinn í Garðabæ engu að síður samninginn; þótt Garðabæjarlistinn hafi ítrekað bent á hagsmunatengsl Bjargar varðandi málið og hafi fært til bókar að „óásættanlegt er að gengið sé til samninga án útboðs við fyrirtæki sem er að hluta í eigu forseta bæjarstjórnar.“

Þetta kom fram í gær á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar, þegar tekið var fyrir mál sem varðar samning við fyrirtækið Terra um leigu á einingum fyrir leikskóla: Liður 9, eftirfarandi númer, 2105431: Samningur við Terru um leigu á einingum fyrir leikskóla. Um málið og fundinn má lesa hér.

Samkvæmt áreiðanlegum heimildum Mannlífs er í samningnum kaupréttsverðið 190 milljónir, 2023, og lækkar eftir því sem leigt er til fleiri ára, niður í 147 milljónir á sjöunda ári.

„Sviðsstjóri fræðslu- og menningarsviðs – Eiríkur Björn Björgvinsson – gerði grein fyrir samningi við Terru um leigu á einingum fyrir leikskóla sem staðsettur verður við hlið leikskólans Sunnuhvols á Vífilsstöðum og hefur verið nefndur Mánahvoll.“

Eiríkur Björn Björgvinsson er Sviðsstjóri fræðslu- og menningarsviðs Garðabæjar.

Var samningurinn samþykktur: „Bæjarráð samþykkir samninginn með fjórum atkvæðum (ÁHJ,SHJ,AG,GVG) gegn einu (IA). Bæjarráð vísar samningnum til afgreiðslu á fundi bæjastjórnar 19. ágúst næstkomandi. Bæjarráð Garðabæjar.“

- Auglýsing -

Sara Dögg Svanhildardóttir oddviti Garðabæjarlistans er mjög ósátt með samning þennan og í samtali við Mannlíf segir hún að „efnislegt innihald samningsins einfaldlega ber það með sér að verið sé að sniðganga lög um opinber innkaup.“ Og bendir á að  „það þarf ekki annað en að horfa á hækkun leiguverðs sem á sér stað eftir tveggja ára leigu, en hún er umtalsverð“ segir Sara Dögg. Það er hennar mat og skoðun „að hér er einfaldlega verið að fara gegn meginreglu um opinber innkaup sem fjallar um að gæta skuli jafnræðis, meðalhófs og gagnsæis opinberra innkaupa,“ segir Sara Dögg og bætir við:

„Það er ekki gert með þessum samningi sem er undir leigusamningi sem inniheldur forkaupsrétt sveitarfélagsins á húsunum. Hér er einfaldlega um gamaldags og löngu úrelt vinnubrögð að ræða sem við í Garðabæjarlistanum mótmælum harðlega. Því greiddum við atkvæði gegn þessum samningi.“

Sara Dögg er ósátt að gerður var samningur án útboðs.

Ingvar Arnarson frá Garðabæjarlistanum lagði fram eftirfarandi bókun á fundinum:

- Auglýsing -
Ingvar Arnarson lagði fram bókun á fundinum fyrir hönd Garðabæjarlistans.

„Við í Garðabæjarlistanum teljum eðlilegt að þegar gengið er til samninga um kaup eða leigu á færanlegu húsnæði sé farið í útboð, enda er fjárhæð þessa samnings langt yfir viðmiðunarfjárhæðum sem kveðið er á um í lögum um opinber innkaup. Í ljósi þess getum við ekki samþykkt að Garðabær gangi til samninga um leigu og forkaupsrétt á gámaleikskóla í eigu Terra. Auk þess teljum við óásættanlegt að gengið sé til samninga án útboðs við fyrirtæki sem er að hluta í eigu forseta bæjarstjórnar,“ en forseti bæjarstjórnar í Garðabæ – og sá einstaklingur sem á í áðurnefndu fyrirtæki sem fékk samninginn án útboðs, er Björg Fenger lögfræðingur.

Ingvar segir að það sé „stefna Garðabæjarlistans að öll meiriháttar innkaup fari í útboð og tryggja þannig gagnsæi og góða nýtingu á skattfé Garðbæinga.“

Í framhaldi af bókun Ingvars á umræddum fundi lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn fram eftirfarandi bókun á fundinum:

Gunnar Einarsson er bæjarstjóri Garðabæjar.

„Garðabær leggur ríka áherslu á þjónustu við foreldra með börn á leikskólaaldri. Fjölgun barna í Garðabæ er mikil um þessar mundir og brýnt að börnum sé útveguð leikskólavist við 12 mánaða aldur eins og Garðabær leggur upp með. Leiga fasteignar eins og þeirrar sem hér um ræðir er undanskilin gildisviði laga um opinber innkaup nr. 120/2016. Öll tilvísun í viðmiðunarfjárhæðir samkvæmt þeim lögum á ekki við hér.
Varðandi hæfi bæjarfulltrúa vísast til ákvæða sveitarstjórnalaga og samþykktar um stjórn Garðabæjar sem fylgt hefur verið hvívetna í þessu máli eins og öðrum málum sem koma til umfjöllunar og afgreiðslu bæjaryfirvalda. Bæjarráð samþykkir samninginn með fjórum atkvæðum (ÁHJ,SHJ,AG,GVG) gegn einu (IA). Bæjarráð vísar samningnum til afgreiðslu á fundi bæjastjórnar 19. ágúst nk. Bæjarráð Garðabæjar.“

Guðjón Erling Friðriksson bæjarritari Garðabæjar.

Fundinn sátu: Áslaug Hulda Jónsdóttir formaður, Sigríður Hulda Jónsdóttir aðalmaður, Gunnar Valur Gíslason aðalmaður, Almar Guðmundsson aðalmaður, Ingvar Arnarson varamaður, Guðjón Erling Friðriksson bæjarritari, Eiríkur Björn Björgvinsson sviðsstjóri fræðslu- og menningarsviðs, Eysteinn Haraldsson bæjarverkfræðingur, Svanhildur Þengilsdóttir sviðsstjóri fjölskyldusviðs, Hulda Hauksdóttir upplýsingastjóri, Guðbjörg Brá Gísladóttir deildarstjóri umhverfis og framkvæmda.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -