Föstudagur 15. nóvember, 2024
-1.2 C
Reykjavik

Geðveikir vinnustaðir

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Höfundur / Árelía Eydís Guðmundsdóttir

„Mig langar bara að mæta í vinnuna og vinna að áhugaverðum verkefnum með fólki sem hefur gaman af vinnunni sinni “. Unga konan horfði á mig raunmædd á svipinn. Hennar stafsreynsla spannar hátt í tíu ár á mismunandi stöðum. Hún bætti við; „mér finnst bara svo skrýtið að fólk er bara oft að reyna að koma sér hjá verkefnum, vill ekki prófa neitt nýtt og talar endalaust illa um hvert annað, svo tekur allt svo langan tíma.“ Aftur andvarpaði hún.

Það er eðlileg krafa að það sé skemmtilegt í vinnunni og hennar kynslóð leggur mikla áherslu á það. Við eyðum stórum hluta af tíma okkar í vinnunni og þau verkefni og tengsl sem við myndum þar eru mikilvæg fyrir þroska okkar og vellíðan almennt.

Í leiðtogafræðum er stöðugt unnið að því að finna út úr því hvernig hægt sé að auka skilvirkni og árangur og styrkja þannig fyrirtæki og stofnanir í samkeppni. Lengi vel var talið að lykillinn væri að leiðtoginn væri hetjan sem hefði allar lausnir í hendi sér. Áherslan undanfarna áratugi hefur beinst að því hvernig leiðtogi getur virkjað hópinn.

Undanfarið hefur sjónarhorn fræðimanna og leiðtoga beinst að vellíðan og samhyggð á vinnustöðum. Tækninýjungar, breyttar kröfur og starfsumhverfi ýta á stjórnendur að finna nýjar leiðir. Ljóst er að gagnrýnin hugsun og sköpunarkraftur gerir gæfumun í framþróun nú þegar fjórða iðnbyltingin er að breyta störfum og verkefnum á vinnustöðum.

Samhyggð er sú tilfinning að maður finni til með fólki og skilji það án þess að upplifa tilfinningar þess. Meðaumkun er þegar við upplifum tilfinningalega það sama og viðkomandi fólk. Munurinn þarna er mikill. Fólk sem starfar á sjúkrahúsum, í lögreglu, slökkviliði eða tekur þátt í björgunarstörfum myndi ekki geta starfað lengi ef það tæki tilfinningalega á sig þjáningu annarra. Hins vegar er það líklegra til að vera gott í starfi sínu ef það sýnir samhyggð. Þeir sem eru í nánum tengslum, sem er grunnurinn í samhyggð, eru heilbrigðari og lifa lengur. Heilsufarslega er félagsleg einangrun meira vandamál en offita og reykingar eða hár blóðþrýstingur.

- Auglýsing -

Samhyggð þýðir einfaldlega að við umgöngumst hvert annað með það viðhorf að við séum öll tengd. Á vinnustöðum fara fram erfið samtöl, það þarf að gefa endurgjöf á frammistöðu og höndla erfiða einstaklinga og samskipti eru alltaf smávegis vesen, það liggur í hlutarins eðli. Í vinnunni, eins og í fjölskyldunni, eru erfiðir, skrýtnir og algjörlega óþolandi einstaklingar. Ef við hins vegar getum séð að við erum stundum erfið, skrýtin og algjörlega óþolandi sjálf þá verður viðhorf okkar annað.

Í upphafi árs hittast leiðtogar heims í Davos og ræða um framtíðarlausnir sem eru mikilvægar heiminum. John Flint, forstjóri HSBC, og Muiel Pénicaud, atvinnumálaráðherra Frakklands, ræddu um mikilvægi þess að huga að því hvernig vinnumarkaðurinn tekur á móti þeim sem hafa átt við geðræn vandamál að stríða því aukning er á slíkum veikindum, sérstaklega meðal ungs fólks.

Það sem var eftirtektavert í máli þeirra var áherslan á að geðveikir einstaklingar gætu bætt vinnustaði. Þeir sem hafa átt við geðræn vandamál að stríða hafa oft hæfileikann til að hugsa út fyrir boxið og ekki síst hafa þeir þurft að sýna mikla þrautseigju. Á Íslandi hefur komið í ljós að vinnustaðir sem taka við fólki sem er að koma aftur á vinnumarkað eftir að hafa glímt við andleg veikindi, hafa oft fundið fyrir aukinni samhyggð í kjölfarið.

- Auglýsing -

Vinnustaðurinn verður opnari og fjölbreyttari og oft leggur fólk sig fram um að hjálpa þeim sem koma inn til að ná áttum. Þegar við hjálpum öðrum hjálpum við okkur sjálfum, sá leiðtogi sem fóstrar slíkt andrúmsloft nær að virkja betur hópinn. Fjölbreytni í vinnunni skapar samhyggð. Fjölbreytni í mannlegri flóru opnar okkur eins hvert fyrir öðru og eykur sköpunarkraft og gagnrýna hugsun – vinnustaðurinn verður geðveikur!

Unga konan sem ég minntist á í upphafi hefur rétt fyrir sér að því leyti að þegar vinnustaðir verða of einsleitir og skortur verður á samkennd og samhyggð þá er ekki gaman í vinnunni. Sá sem dæmir aðra einangrar sjálfan sig og sá sem er dæmdur upplifir höfnun. Geðveikir vinnustaðir eru þar sem gullna reglan er viðhöfð: „Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.“.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -