Læknar á tveimur sjúkrahúsum í Bandaríkjunum hafa nú hafið prófun á því að gefa karlmönnum með væg einkenni Covid-19 kvenhormón í tilraun til að komast að því hvort slík hormón geri þeim auðveldara fyrir að sigrast á sjúkdómnum. Fram hefur komið að sjúkdómurinn leggst þyngra á karlmenn en konur og færri konur deyja úr honum en karlmenn og leikur vísindamönnum því forvitni á að vita hvort það tengist kvenhormónum.
Önnur rannsóknin er á vegum Renaissance School of Medicine við Stony Brook háskólann á Long Island og einn læknirinn sem framkvæmir hana þar, Sharon Nachman, sagði í samtali við The New York Times að þessi hugmynd væri langt fyrir utan viðurkennda ramma en það væri oft þannig sem góðar hugmyndir byrjuðu. „Við vitum að konur smitast af sjúkdómnum,“ sagði hún. „En líkamar þeirra bregðast öðruvísi við en líkamar karla og okkur leikur forvitni á að vita hvort það tengist estrógeni.“
Hitt sjúkrahúsið sem tekur þátt í tilrauninni er Cedars-Sinai Medical Center í Los Angeles, þar sem sjötíu og fimm prósent af sjúklingum með Covid-19 á gjörgæsludeild eru karlmenn. Þar verða karlmenn með væg einkenni sprautaðir með prógesteróni, öðru kvenhormóni, í tilraun til að finna út hvort það hormón valdi því að konur sigrast betur á sjúkdómnum. „Eitthvað við það að vera kona verndar þær gegn sjúkdómnum og þá lá auðvitað beinast við að tengja það hormónum,“ segir Sara Ghandehari, einn læknanna sem taka þátt í tilrauninni þar.