Epal tekur þátt í HönnunarMars ellefta árið í röð með vandaðri sýningu á íslenskri hönnun eftir fjölbreyttan hóp íslenskra hönnuða sem hafa náð góðum árangri á sínu sviði bæði hérlendis og erlendis. Linda Jóhannsdóttir, hönnuður og eigandi PASTELPAPER, frumsýnir borð á sýningunni.
„Ég frumsýni B38 sem er sófaborð,“ segir Linda.
„Húsgögn hafa lengi verið á teikniborðinu hjá mér og þetta er fyrsta húsgagnið í fyrirhugaðri húsgagna- og heimilislínu. Ég hef áður unnið mikið með form, liti og áferð og einkennist B38 af því. Skemmtilegt form borðsins gefur rými þess aukið aðdráttarafl enda rík áhersla lögð á efnisval, einfaldleika og gæði. Ég vinn yfirleitt mest með pappír þar sem PASTELPAPER er þekktast fyrir myndir og póstkort og því skemmtilegt að fá að vinna með önnur hráefni. B38 er 38×90, er úr gleri og stáli og er íslensk framleiðsla.“
Sýningin ber nafnið Íslensk hönnun í sinni litríkustu mynd og aðrir hönnuðir eru til dæmis: Anna Thorunn, Bryndís Bolladóttir, Guðmundur Lúðvík, Heiðdís Halla, Hlynur Atlason og Sigga Heimis.
HönnunarMars í Epal, Skeifunni stendur yfir dagana 28.-31. mars 2019 og eru allir velkomnir.
Mynd / Aldís Pálsdóttir