Geir H. Haarde fyrrverandi forsætisráðherra segist hafa þurft að hugsa vel um sig til að halda jafnvægi í gegnum hrunið; álagið var gríðarlegt – ómannlegt.
Geir er nýjasti gesturinn í Podcasti Sölva Tryggvasonar, og fer hann í þættinum yfir hrunið, og margt fleira afar áhugavert:
„Þetta var auðvitað mjög erfitt tímabil og algjörlega ólíkt öllu sem fólk þekkti. En mér tókst að halda ró minni og halda mér í góðu jafnvægi í gegnum allan þennan tíma. Ég gerði tvennt meðvitað. Ég neitaði mér algjörlega um allt áfengi í nánast heilt ár. Ekki að það hafi verið vandamál, en ég vissi bara að það myndi ekki hjálpa mér. Svo var ég mjög duglegur í ræktinni og mætti alla morgna snemma til að vera kominn sprækur í vinnuna eftir að hafa hreyft mig,“ segir Geir og bætir við:
„Þetta tvennt held ég að hafi hjálpað mér persónulega í þessum aðstæðum og hjálpað mér að takast á við hlutina betur, svo passaði ég mig líka á því að vera ekkert inni á samfélagsmiðlum. Í raun hélt ég mig nánast alveg frá þeim fram til 2015. Það er mikilvægt fyrir fólk sem er í opinberum störfum að eyða ekki of miklum tíma á samfélagsmiðlum og ég hugsa að það geti auðveldlega brenglað dómgreindina ef maður fer að liggja yfir því sem fólk skrifar þar.“