Drengirnir í hljómsveitinni Dúndurfréttir halda tónleika 18. janúar í Bæjarbíói í Hafnarfirði. Við heyrðum í Pétri Erni Guðmundssyni, tónlistarmanni og söngvara Dúndurfrétta.
„Þetta verða svona bland í poka-tónleikar,“ segir Pétur. „Við verðum með úrval af klassísku rokki á borð við Pink Floyd, Led Zeppelin, Deep Purple, Kansas, Boston, Queen og jafnvel smávegis Bítlatónlist.“
Hvernig komstu undan hátíðunum? „Ég kom vel undan hátíðunum því ég var í Washington og New York frá Þorláksmessu til þrettánda. Gekk af mér fæturna og skoðaði fjölmörg söfn af ýmsu tagi.“
Hvernig leggst árið í þig? „Það er mikið fram undan hjá okkur í Dúndurfréttum því við erum að fara að flytja Pink Floyd-plötuna The Wall í heild sinni í apríl í Eldborg með öllu tilheyrandi. Svo verður hin hljómsveitin mín, Buff, 20 ára á árinu og við ætlum að koma með nýtt frumsamið efni. Ég kem líka einn fram með kassagítarinn út um allt við allskyns tilefni og er einmitt þessa dagana að bóka mig á fullu. Svo er ég mikið á Snapchat en snappið mitt er gramedlan,“ segir Pétur fullur tilhlökkunar fyrir árinu.
Miða á tónleikana má nálgast á midi.is.
Mynd / Íris Dögg Einarsdóttir