Lögregla var kölluð út í gærkvöldi vegna karlmanns sem gekk berserksgang. Maðurinn hafði lent í slagsmálum auk þess að vera grunaður um eignaspjöll og fleiri brot. Maðurinn brást ekki vel við handtökunni og reyndi að sparka í lögreglumenn. Gistir hann bak við lás og slá þar til hann verður viðræðuhæfur en ekki kemur fram hvað manninum gekk til. Þá bárust lögreglu tvær tilkynningar um þjófnað og var einn handtekinn vegna heimilisofbeldis.
Tvö rafskútuslys urðu í gærkvöldi. Báðir aðilar voru fluttir á bráðadeild til aðhlynningar en voru meiðslin sem betur fer aðeins minniháttar. Lögregla og slökkvilið var kallað út þegar eldur kom upp í bíl. Var bíllinn fjarlægður með dráttarbifreið að loknu slökkvistarfi en ekki kemur fram hvort um íkveikju hafi verið að ræða. Þrír ökumenn voru stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum vímuefna.