Föstudagur 15. nóvember, 2024
1.6 C
Reykjavik

Gekk fram af Kínverjum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sólveig Guðmundsdóttir leikkona rifjar upp eftirminnileg hlutverk á ferlinum.

Sólveig Guðmundsdóttir leikkona segir að öll þau hlutverk sem hún hefur tekið að sér eða fengið tækifæri til að skapa hafi stækkað hana sem leikkonu. Eftirminnilegasta hlutverkið hljóti þó að vera Sóley Rós ræstitæknir í samnefndum tvíleik sem hún og María Reyndal settu upp í Tjarnarbíói en þar lék hún á móti Sveini Ólafi Gunnarssyni. „Við María skrifuðum verkið og framleiddum það og þar sem það byggir á sögu konu sem býr og starfar á Akureyri og fjallar um barnsmissi, atburð sem bæði er erfitt að tala um og sviðsetja, þá var líka mikil ábyrgð á okkur að skila verkinu vel af okkur,“ lýsir hún og bætir við að það sé ekki oft sem leikarar fái svona hlutverk upp í hendurnar. Því hafi allir sem að verkinu komu vandað sig og hlúð að þessari fallegu og viðkvæmu sögu. „Það var ótrúlegt að fara með áhorfendum í gegnum hlátur og grátur í svona náinni frásögn. Mikill skóli. Mér fannst ég stækka bæði sem leikkona og manneskja við að vinna verkið. Þetta var líklega svona lykilhlutverk fyrir mig.“

Önnur sýning sem Sólveigu þykir óhemju vænt um er sýningin Lífið – stórkostlegt drullumall sem Leikhúsið 10 fingur setti upp. „Við Helga Arnalds, Charlotte Böving og Sveinn Ólafur bjuggum þá sýningu til frá grunni. Verkið segir stóra sögu fyrir börn og fullorðna en alveg án orða og efniviðurinn eða leikmyndin er mold þannig að við sköpum heilan heim úr mold á sviðinu,“ segir hún og játar að þetta hafi ekki verið auðvelt verk; að búa til sýningu úr engu, án allra orða og aðeins með mold til að leika með. Orkan sem listrænir stjórnendur settu í verkið hafi hins vegar skilað sér á fallegan hátt í það og til áhorfenda víðs vegar um heim og gaman að sjá hvernig mismunandi menningarheimar upplifðu söguna. „Í Kína þar sem við sýndum verkið síðasta sumar þóttum við til dæmis fara yfir strikið með því að setja moldina upp í okkur og slást og bítast um yfirráðasvæðið, um moldina, á meðan Möltubúar tengdu við heilagleikann og möguleg trúartákn í sýningunni. En eitt af því skemmtilega við verkið, sem stendur til að sýna í Þýskalandi, Kaíró og í Hollandi á næsta ári, er að það talar til allra aldurhópa og er mjög opið til túlkunar. Þetta er því hlutverk sem gaman er að heimsækja aftur og aftur.“

Af öðrum hlutverkum nefnir Sólveig Agnesi í ILLSKU, sem Óskabörn ógæfunnar settu upp og Vignir Rafn Valþórsson leikstýrði og Jórunni í íslenska barnaleikritinu Horn á höfði sem GRAL setti upp í leikstjórn Bergs Þórs Ingólfssonar. „Svo er ég mjög þakklát fólkinu sem ég hef unnið með á ferlinum, meðal annars leikstjórunum sem hafa boðið mér vinnu því það er mikilvægt að vera treyst fyrir hlutverki til að æfa sig og verða betri í handverkinu,“ segir hún glöð.

Mynd / Rakel Ósk Sigurðardóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -