Föstudagur 25. október, 2024
3.2 C
Reykjavik

Gerðist Gunnar Bragi sekur um mútuþægni?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Höfundur / Ómar R. Valdimarsson, lögmaður.

Ómar R. Valdimarsson. Mynd / Gassi Ólafsson

Í umræðum um afdrifaríka kvöldið á Klaustri bar hefur verið töluvert fjallað um það þegar Gunnar Bragi Sveinsson, fyrrum utanríkisráðherra, ræddi við drykkjufélaga sína um skipan Geirs H. Haarde og Árna Þórs Sigurðssonar í embætti sendiherra. Í umræðunni hefur m.a. verið látið að því liggja, að með embættisfærslum sínum hafi Gunnar Bragi þarna brotið lög, þ.á.m. 128. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í 1. mgr. þeirrar lagagreinar segir:

„Ef opinber starfsmaður, alþingismaður eða gerðarmaður heimtar, tekur við eða lætur lofa sér eða öðrum gjöfum eða öðrum ávinningi, sem hann á ekki tilkall til, í sambandi við framkvæmd starfa síns, þá skal hann sæta fangelsi allt að 6 árum, eða sektum, ef málsbætur eru.“

Þegar fyrri ummælin um skipan sendiherra eru skoðuð, er ólíklegt að hægt sé að fullyrða, að Gunnar Bragi sé að gangast við því að hafa brotið gegn framangreindu hegningarlagaákvæði. Í upptökunni, sem m.a. hafa verið gerð góð skil af Kvennablaðinu, segir Gunnar Bragi í fyrri hluta þessa samtals:

„Þegar ég ákvað það að skipa Geir H. Haarde sem sendiherra í Washington, það var í fyrsta lagi … við ákváðum þetta saman, skilurðu … Ég ræddi það síðan sem … Það hefur ekki skemmt. … Þeim fannst þetta nú ekki … Ég fór og ræddi þetta við náttúrulega, ég ræddi þetta við alla flokka í sjálfu sér. Ég man ekki hvort ég hafi sagt … Ástæðan var sú að ég sá strax það að ég gæti ekki skipað Geir einn sendiherra. Ég gæti ekki … einan. Það yrði of þungur biti fyrir þingið og allt þetta. Þannig að ég gerði Árna Þór að sendiherra.“

Þrátt fyrir að framangreind ummæli teljist varla brjóta gegn ákvæði almennra hegningarlaga, mætti setja þau í samhengi við a-lið 1. mgr. 10. gr. laga um ráðherraábyrgð nr. 4/1963. Í ákvæðinu segir:

- Auglýsing -

„Loks verður ráðherra sekur eftir lögum þessum:

  1. a. ef hann misbeitir stórlega valdi sínu, enda þótt hann hafi ekki beinlínis farið út fyrir embættistakmörk sín.“

Framangreint lagaákvæði yrði ávallt að skoða með tilliti til þeirra hátternisreglna, sem um störf ráðherra gilda. Þar er nærtækast að líta til ákvæðna siðareglna ráðherra nr. 360/2011 (sem rétt er að taka fram að aldrei voru staðfestar af ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar). Í framangreindum siðareglum er fjallað með nokkuð ítarlegum hætti um hagsmunatengsl, hagsmunaárekstra, háttsemi og framgöngu ráðherra. Rauður þráður reglnanna er að ekkert skal það aðhafast, sem varpað gæti skugga á trúverðugleika ráðherra, það hvort hann sé öðrum háður eða hvort hann sé að nýta sér stöðu sína til þess að ota sínum tota. Þegar reglurnar eru lesnar með hliðsjón af áðurnefndri lagagrein laga um ráðherraábyrgð, er ekki ónærtækt að telja að annað hafi ráðið för hjá Gunnari Braga en faglegt mat á hæfni Árna Þórs og Geirs Haarde til þess að gegna embættunum.

Gunnar Bragi.

Nú er það hins vegar svo, að sök skv. lögum um ráðherraábyrgð fyrnist á þremur árum og ráðherrar verða aðeins dregnir til ábyrgðar skv. 14. gr. stjórnarskrárinnar, eftir að Alþingi hefur kært ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra. Með vísan til þessa verður að telja að þessi angi málsins sé úti.

- Auglýsing -

Víkur nú sögunni að því gagngjaldi, sem Gunnar Bragi vildi fá persónulega, fyrir skipun Geirs í embætti sendiherra. Í seinni hluta samtalsins á Klaustur bar sagði Gunnar Bragi:

„Þegar ég á fund með Bjarna í forsætisráðuneytinu, nei í fjármálaráðuneytinu, og ég segi við Bjarna: Bjarni, algjörlega sjálfsagt, auðvitað geri ég Geir að sendiherra. Hvað segi ég við Bjarna? Bjarni, mér finnst bara sanngjarnt að þið horfið til svipaðra hluta þegar ég þarf á því að halda.“

Bjarni, algjörlega sjálfsagt, auðvitað geri ég Geir að sendiherra.

Óhjákvæmilegt er að horfa til áðurnefndrar 128. gr. almennra hegningarlaga þegar þessi orð eru skoðuð. Erfitt er að komast að annarri niðurstöðu en að þarna sé Gunnar Bragi að greina frá því, að hann hafi verið að láta lofa sér ávinningi, sem hann á ekki tilkall til, í sambandi við framkvæmd starfa síns. Brot gegn þessu ákvæði varðar allt að 6 ára fangelsi.

Rétt er að geta þess, að Bjarni Benediktsson segir að þessi frásögn sé þvættingur, a.m.k. að svo miklu leyti sem að Gunnar Bragi eigi nokkuð inni hjá Sjálfstæðisflokknum fyrir skipan Geirs sem sendiherra. Allt að einu, gæti dómstóll komist að þeirri niðurstöðu að brotið hafi verið gegn ákvæðinu, með því einu að Gunnar Bragi hafi gert kröfu um loforð frá Bjarna Benediktssyni, algjörlega óháð því hvort loforðið hafi verið gefið eða jafnvel að Bjarni hafi sagt honum að éta það sem úti frýs. Ákvæðið yrði tæplega skýrt svo þröngt af dómstól, að til þess að brotið hefði verið gegn því hefði þurft að koma samþykki fyrir kröfunni um ávinninginn.

Að öllu framangreindu sögðu má velta því fyrir sér, hvort það sé enn hægt að ákæra Gunnar Braga fyrir brot gegn 128. gr. almennra hegningarlaga, að undangenginni rannsókn á brotinu. Gunnar Bragi skipaði Geir og Árna sendiherra 30. júlí 2014. Miðað við frásögn Gunnars Braga sjálfs má gera að því skóna að fundur hans með Bjarna hafi átt sér stað einhvern tíma þar á undan. Brot gegn ákvæði 128. gr. hegningarlaga fyrnist á 10 árum, sbr. 3-lið 1. mgr. 81. gr. laganna. Til þess að rannsókn geti hafist þarf lögreglunni ekki að berast nein kæra frá forsætisnefnd Alþingis, eins og lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu virðist halda. Á lögreglu hvílir frumkvæðisskylda til þess að rannsaka þau afbrot sem kunna að vera framin í landinu. Það er ekki nema í undantekningartilvikum sem lögregla rannsakar ekki afbrot nema að undangenginni kæru, s.s. frá Fjármálaeftirlitinu eða Samkeppniseftirlitinu.

Með vísan til alls þessa er ljóst að Gunnar Bragi er ekki hólpinn, vilji rannsakendur skoða málið frekar.

Sjá einnig: Vandræðalegt karlagrobb en kallar ekki á afsagnir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -