„Nú eru allir lífeyrissjóðir að breyta samþykktum sínum og auka sveigjanleika með heimild til töku á hálfum lífeyri frá 60 ára aldri. Heimildinni er ætlað að auka möguleika fólks til að minnka við sig vinnu um sextugt,“ segir Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða.
Meirihluti sjóðsfélaga í Eftirlaunasjóði Félags íslenskra atvinnuflugmanna (EFÍA) samþykkti í vikunni að heimila töku lífeyris í 50% hlutfalli frá 60 ára aldri ásamt því að fresta töku hálfs lífeyris til að allt að 80 ára aldurs. Fleiri lífeyrissjóðir hafa samþykkt svipuð skref.
Samkvæmt nýlegum breytingum á almannatryggingalöggjöfinni er heimilt að hefja töku á hálfum lífeyri sem skerðist ekki vegna tekna. Úrræðið er háð því að samhliða sé hafin taka á hálfum lífeyri frá lífeyrissjóðum og að sú fjárhæð nái ákveðnum fjárhæðarmörkum.
Þessi möguleiki er þó ekki alveg í hendi því stefnt er að gildistöku breytinga á samþykktum lífeyrissjóðanna 1. september að undangenginni staðfestingu fjármála- og efnahagsráðherra.