Breska manninum Ben Speller brá í brún þegar hann komst að því að „heimilið“ í Amsterdam sem hann hafði leigt í gegnum Airbnb var ekkert annað en gámur.
Þegar Speller ákvað nýlega að skella sér í ferðalag til Amsterdam þótti honum tilvalið að leigja íbúð í gegnum Airbnb. Hann greiddi 150 Bandaríkjadali, sem gerir rúmar 18 þúsund krónur, fyrir eina nótt í „hreinni íbúð“ eins og sagði í lýsingunni. Þegar á staðinn var komið sá Speller að um gám var að ræða.
Speller greindi frá þessu á Facebook og deildi myndum, síðan þá hafa margir kallað gáminn „versta leigueignin“ á Airbnb. Speller tók þá fram að hann hefði fengið 150 dollarana endurgreidda frá Airbnb þegar leigjandinn neitaði að endurgreiða honum.
Þessu er greint frá á vefnum AT5, þar má sjá myndband af gámnum sem um ræðir.