Þriðjudagur 24. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Getur verið afl sem enginn ræður við

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Mikael Tamar Elíasson er vélstjóri á línubáti. Þótt hafið bláa hafið hugann dragi þá leynast þar hættur og lenti Mikael Tamar í kröppum dansi þegar brot skall á bát sem hann var á.

 

Hann ólst upp fyrir vestan. Fór svo suður til að vinna í fiski í Grindavík og fór svo á sjóinn 18 ára gamall. Hann fór á netabátinn Maron GK sem var einmitt gerður var út frá Grindavík. Síðan fór hann á Tjaldanes GK hjá sömu útgerð en hann vann hjá útgerðinni í eitt og hálft ár.

Mágur hans spurði hann síðan hvort hann væri tilbúnn til að prófa að fara á línubát. Hann réð sig svo um borð í Gísla Súrsson og segir að eftir það hafi ekki verið aftur snúið.

„Það ævintýri er nánast búið að vera óslitið. Ég hætti svo hjá þeirri útgerð og fór síðan að róa fyrir útgerð í Sandgerði og fór svo til Noregs þar sem ég var í eitt og hálft ár að prófa ævintýramennskuna þar. Ég kom aftur heim 2011 og fór þá aftur á Gísla Súrsson. Ég hafði byrjað þar sem háseti en útgerðin lét smíða stærri báta og þá var mér treyst til þess að taka vélstjóraréttindi og verða vélstjóri um borð. Þannig að maður hefur fengið tækifæri til þess að vinna sig upp stigann; fengið traust til þess sem maður er gríðarlega þakklátur fyrir.“

Vésteinn GK var smíðaður 2018 og hefur Mikael Tamar verið vélstjóri þar síðan þá.

- Auglýsing -

Hvað vill hann segja um sjómannslífið?

„Mér finnst rosalega gott að sigla bara frá landi. Þegar maður er kominn út á sjó í fjögurra manna samfélagi þá er þetta bara ég og strákarnir og ég er búinn að þekkja tvo þeirra í mörg ár. Þetta erum bara við vinirnir að hittast og vinna okkar vinnu. Það skiptir svo miklu máli að samfélagið sé gott en þegar við komum í land þá förum við stundum saman til útlanda í frí ásamt mökum. Það kemur ýmislegt upp á í fjögurra manna samfélagi og það skiptir máli að geta verið til staðar fyrir hvern annan. Það þarf að ræða suma hluti og það þarf að finna lausnir.“

Mikael Tamar Elíasson

- Auglýsing -

Snapchat og Instagram

Lífið um borð í litlum línubáti er oft krefjandi og nefnir Mikael Tamar í því sambandi óreglulegan svefn og miklar vökur sem reyna oft á.

„Ég þekki lítið annað en þennan veiðiskap þar sem ég hef verið nánast allan minn sjómannsferil á þessum minni línubátum sem eru kannski ekkert svo rosalega litlir lengur; með tæplega 20.000 króka.

Það er margt sem heillar mig við þennan veiðiskap; þetta litla fjögurra manna samfélag þar sem viðfangsefnin eru mismunandi. Samheldni áhafnar skiptir gríðarlega miklu máli og gerir starfið mun auðveldara. Að geta hlegið og haft gaman í vinnunni þó þreyta sé komin í skrokkinn er mikilvægt og eigum við strákarnir á Vésteini GK mjög auðvelt með það því grínið og léttleikinn er aldrei langt undan. Ég tel mig vera gríðarlega heppinn að vera hluti af þessari áhöfn með Tedda, Tobba og Ragga. Oft og tíðum leyfum við veröldinni að fylgjast með á Snapchat eða Instagram og vekur það ævinlega mikla lukku og hlátur þegar við setjum inn á þessa miðla uppátæki okkar og hvernig lífið gengur fyrir sig á 30 tonna línubáti.“

Mikael Tamar Elíasson

Gríðarlegt magn af fiski

Hann lýsir vinnunni í þessu litla samfélagi.

„Vinnan um borð er þannig að á drættinum eru stöðvarnar fjórar; rúlla, blóðgun, uppstokkari og krókaréttingar. Þegar allir eru þaulvanir þá sér uppstokkaramaðurinn um krókaréttingarnar líka en ef það þarf aukahendur í ganginn í stuttan tíma þá stekkur blóðgunarmaðurinn til. Þannig náum við að búa til aukasvefn og er því yfirleitt alltaf einn í koju.“

Mikael Tamar segir að þeir séu allir komnir með „plús 15 ár undir beltið á línu“. „Því er þetta kærkomið fyrirkomulag þegar úthöldin eru löng og dagarnir langir og þá aðallega á sumrin þegar veðrið er með besta móti og hægt að sækja sjóinn allt úthaldið sem í gegnum tíðina hefur verið 15-20 dagar.“

Yfir vertíðarmánuðina sækja þeir sjóinn aðallega frá Grindavík en sigla svo austur um eða eftir miðjan maí og eru þá yfirleitt á Stöðvarfirði eða Neskaupstað.

„Þessi vertíð sem nú er afstaðin hefur verið mjög frábrugðin síðustu vertíðum og róðralag með minnsta móti hjá okkur sökum kvótaskerðingar sem út frá augum sjómannsins er grátlegt því þessa daga sem við höfum farið á sjóinn höfum við komið að landi með öll kör full af fiski, afla upp undir 25 tonn.

Það var gríðarlegt magn af fiski á miðunum og heyrði maður þá sögu allt frá Austfjarðarmiðum og vestur í Breiðafjörð að flesta vantaði bara kvóta til þess að sækja fiskinn. Það er von allra að kvótaaukning verði áþreifanleg þegar nýtt kvótaár gengur í garð 1. september.“

Mikael Tamar Elíasson

Munaði litlu

Þótt sjórinn lokki og laði þá getur hann sýnt á sér sínar verstu hliðar og tekið líf. Mikael Tamar hefur lent í hættu á sjó.

„Það eru mörg ár síðan. Það var einmitt á gamla Gísla Súrssyni en þá fengum við brot á okkur. Ég var að fara að kippa rúlllunni inn fyrir þegar við fengum brot á bátinn. Það var handfang á rúllunni sem ég hélt dauðahaldi í þegar við fengum brotið á okkur en báturinn lagðist á hliðina.“ Mikael Tamar lenti í köldum sjónum og hélt fast í handfangið. „Þegar báturinn rétti sig af aftur þá svona hálfpartinn skolaðist ég inn fyrir aftur. Ég var rennandi blautur og í sjóstakki og var þess vegna orðinn ansi þungur. Ef ég hefði misst takið á rúllunni þá værir þú ekki að taka viðtal við mig. Það var kolvitlaust veður.

Ég fór svo inn í brú og sat þar rennandi blautur eftir að hafa klætt mig úr blautum fötunum og sat við hliðina á skipstjórnarstólnum. Skipstjórinn sagði að við gætum ekkert farið að beita okkur í þessu og tók stímið í land. Þá fengum við annað brot á okkur sem í rauninni sprengdi gluggann.“

Mikael Tamar segir að þetta hafi verið í fyrsta skipti sem hann var verulega hræddur á sjó. „Þarna upplifði ég í fyrsta skipti alvöru sjóhræðslu. Sjórinn er eitthvað afl sem maður ræður engan veginn við. Þetta er bara óbeiðslað afl. Ég reyndi að halda kúlinu eins og ég gat þó allt væri nötrandi inni í mér. Maður reyndi að bera sig vel þó maður hafi verið nötrandi á beinunum.“

Jú, hafið gefið og hafið tekur.

„Ég hef alltaf borið virðingu fyrir hafinu. Maður kannski horfir á sjóinn sem er sléttur og fagur og báturinn hreyfist ekki og svo nokkrum dögum seinna er þetta orðið að einhverju afli sem enginn ræður við. Skjótt skipast veður í lofti. Við getum verið í renniblíðu en svo nokkrum klukkustundum síðar í slag við hafið í haugabrælu.“

Greinin birtist í nýjasta tölublaði Mannlífs sem má lesa í heild sinni hér. 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -