Í dag barst Mannlífi bréf frá Gísli Hvanndal Jakobsson, sem er 36 ára tveggja barna faðir. Margir muna eftir Gísla frá því að hann heillaði landann með fallegum söng sínum í Idolinu á sínum tíma. Bréfið er hér fyrir neðan:
„23. apríl síðastliðinn fékk ég mjög alvarlegt flog og endaði í öndunarvél í fjóra daga. Í þessu flogi brotnuðu báðir upphandleggir. Hægri öxlin brotnaði mjög illa og ég er með tvær stálplötur á hægri öxlinni og 6 eða 7 skrúfur í upphandlegg.
Annað lungað á mér féll saman og ég fékk lungnabólgu. Neðsti hryggjaliðurinn féll niður og nokkrir brotnuðu og brákuðust. Ég fékk garnaflækju og hluti af þörmunum voru teknir. Minnið mitt skertist því ég man ekki dagana á undan floginu né næstu 10 daga á sjúkrahúsinu.
Ég var í 5 vikur á sjúkrahúsi. Foreldrum mínum var sagt að ég væri í mikilli lífshættu og þau ættu að búa sig undir það að ég myndi ekki hafa það af. En ég var mjög heppinn því augljóslega lifði ég af þar sem ég er að skrifa þessa grein.
Vikurnar liðu og ég fór að hugsa um dauðann og óttann í lífinu. Ég áttaði mig á því að dauðinn er ekkert merkilegur og í raun ekkert til að óttast. Að næstum því að deyja er bara eins og að slökkva ljósin í herberginu áður en maður fer að sofa. Ég áttaði mig á því að alheimurinn hafði gefið mér mikla og verðmæta gjöf. Alheimurinn tók frá mér óttann við að deyja.
En sú líðan er að hverfa smátt og smátt. Ég er að þroskast og mun vera að þroskast allt mitt líf. Ég mun gera mistök það er víst. En þannig á það að vera. Lífið er ferð og á veginum hittum við fullt af fólki af öllum stærðum og gerðum og þurfum að takast á við ýmis verkefni. Ég er eilífa stúdent að læra. Ég stefni að eigin ágæti hvern einasta dag. Að verða betri í dag en í gær.
Ég hef gert fullt af mistökum í lífinu og hef fyrirgefið sjálfum mér fyrir þau því ég einfaldlega vissi ekki og gat ekki betur miðað við þann þroska og þekkingu sem ég hafði. En nú er ég þroskaðri og vitrari en ég var í gær. Ég hefði ekki getað skrifað þessa grein í gær.
Flogið gaf mér líka þá þekkingu að það er líf eftir þetta líf og að það er til fortilvera. Flogið gaf mér frið og að kunna að meta það sem ég er og hef hvern einasta dag. Flogið gaf mér andlega visku og æðruleysi. Flogið gaf mér fyrirgefningu og það að sætta mig við það sem ég get ekki breytt. Flogið gaf mér líka ábyrgð. Að héðan í frá er ég meira vakandi í lífinu og að það er ég sem tek ábyrgð á sjálfum mér og hverri einustu ákvörðun og gjörð sem ég tek í lífinu. Flogið gaf mér ný viðhorf , heilbrigði viðhorf, andleg viðhorf.
Dagurinn sem ég næstum því dó var í raun dagurinn sem ég lifnaði við. Dagurinn sem ég næstum því dó var dagurinn sem ég steig út úr myrkrinu í ljósið. Dagurinn sem ég næstum því dó er dagurinn sem hið nýja líf mitt byrjaði. Dagurinn sem ég næstum því dó voru kaflaskil og hefur dregið mig inn á svið nýrra ævintýra. Dagurinn sem ég næstum því dó gaf mér allt. Dagurinn sem ég næstum því dó gaf mér þá gjöf að opna hjarta mitt meira og meira. Dagurinn sem ég næstum því dó sýndi mér og gaf mér nýjan andlegan veruleika og þá fullvissu að til er andlegur kærleikur og væntumþykja sem við getum öll eignast og upplifað. Dagurinn sem ég næstum því dó gaf mér gleði og hjarta barnsins sem börnin mín hafa kennt mér smátt og smátt hvern einasta dag. Ég gerði mistök í gær en ég lærði af þeim í dag. Takk fyrir að lesa.“