Laugardagur 16. nóvember, 2024
-0.1 C
Reykjavik

Gísli tónskáld býr til draugahljóð: „Ég er spenntur að heyra hvernig það kemur út“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Það sem er á döfinni eru meðal annars tónleikar á Norrænum músíkdögum um miðjan október. Þá mun kammersveitin Caput frumflytja nýtt verk eftir mig, Skuggaljós. Þetta er um 15 mínútna langt verk í sex stuttum köflum. Það er flókið og margt í því sem sem ég er að gera í fyrsta skipti og ég er spenntur að heyra hvernig það kemur út. Það verður spilað á alls konar óhefðbundin hljóðfæri; slagverkshljóðfæri sem ég hef ekki notað áður og önnur óhefðbundin hljóðfæri svo sem simbalom sem er mikið notað í ungverskri þjóðlagatónlist. Í verkinu er einnig spilað á waterphone, sem er mjög áhugavert hljóðfæri, en vatn í hljóðfærinu sveigir hljómana og brenglar hljóðið. Sumum finnst þetta vera draugalegt hljóð,“segir Gísli Magnússon tónskáld.

Bandaríska kammersveitin Tempo flytur síðan 2. október verkið Aurora eftir Gísla á tónleikum í Kaliforníu. „Þau flytja verk eftir tónskáld héðan og þaðan á tvennum tónleikum í vetur sem tileinkaðir eru nýrri tónlist. Þetta kom þannig til að þessi hópur auglýsti eftir verkum í samkeppni og gátu tónskáld sent inn sín verk. Það endaði á því að mitt verk og nokkur önnur voru valin til flutnings.“

Gísli Magnússon

Skapa eitthvað

Gísli Magnússon segir að hann komi úr mikilli tónlistarfjölskyldu í bæði móður- og föðurætt.

„Afi minn, Gísli Magnússon, var konsertpíanóleikari og kom oft fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Einhvern veginn lá beint við að ég færi í klassískt tónlistarnám. Ég var sendur sex ára gamall í forskóla til að læra á blokkflautu og fékk eiginlega strax góðan grunn í tónfræði.“

Ég var jafnvel áhugasamari um tónfræðina heldur en píanónámið.

- Auglýsing -

Svo fór Gísli að læra á píanó og hélt áfram í tónfræði. „Það er misjafnt hvernig tónfræði leggst í tónlistarnemendur en ég var jafnvel áhugasamari um tónfræðina heldur en píanónámið. Síðan leið langur tími þar til ég fór að tengja þetta við tónsmíðar eða hugsa um tónsmíðar sem starfsvettvang af einhverri alvöru. Ég var þó mikið að prófa mig áfram. Skapa eitthvað.“

Hann fór í menntaskóla og tók sér frí frá píanónáminu. Hann fór síðan í undirbúningsnám í arkitektúr en tónlistin kallaði svo hátt að 22 ára gamall hóf hann nám í tónsmíðum við Listaháskóla Íslands. Árið 2013 lauk hann náminu með BA-prófi og hélt síðan til Amsterdam og útskrifaðist með meistarapróf í tónsmíðum nokkrum árum síðar.

Í dag starfar Gísli sem tónlistarkennari -kennir tónfræði, hljómfræði, tónheyrn og á píanó – og skapar heilu ævintýrin úr tónum.

- Auglýsing -

Gísli Magnússon

Að segja sögu

Hvað einkennir tónlist Gísla Magnússonar?

„Ég var á tímabili mjög fókuseraður á tengingu við náttúruna; hvernig hægt er að túlka hana með tónum, hvernig áferð og orka er í náttúrunni og hvernig hægt er að heimfæra það upp á tónlist. Ég samdi verk þar sem ég var beinlínis að taka náttúrufyrirbrigði fyrir. Það er þó ekkert nýtt að nota náttúru sem innblástur í tónlist en ég fór dálítið langt með það. Á meðan ég var í náminu samdi ég til dæms verk sem er hljóðræn eftirmynd af Strokki – goshvernum. Í verkinu reyndi ég að ná fram áhrifum orkunnar í honum með spennu og eftirvæntingu.

Stundum lít ég á sum verk eftir mig meira sem hljóðlist heldur en tónlist.

Núna nálgast ég tónsmíðarnar meira út frá hljóðum og hugsa frekar hljóðrænt en út frá tónum. Stundum lít ég á sum verk eftir mig meira sem hljóðlist heldur en tónlist. Hljóðið sjálft verður einhvern veginn í forgangi.“

Hann segist mest semja akústíska tónlist; fyrir hljóðfæri. „Ég hef samt gaman af að láta tæknina hjálpa mér.“

Þetta er nútímatónlist. „Ég hef gaman af alls konar tónlist og sæki innblástur í ólík tímabil. Mér finnst líka gaman að vinna með gömul form og setja í nýjan búning. Ég sæki í arf tónlistarsögunnar og hef gaman af því að afla mér upplýsinga um eldri tónlist og tónlist frá öðrum menningarheimum.“

Gísli skapar listaverk eins og málarinn sem stendur með pensilinn fyrir framan trönurnar eða rithöfundurinn. „Maður reynir yfirleitt að segja einhverja sögu. Stundum hef ég unnið út frá ljóðum. Í ljóðum eru oft dregnar upp myndir mér finnst vera áhugaverðar, sem ég tengi við og veita mér innblástur.“

 

Hinn hreini tónn

Tónlistin gefur. „Hún getur verið huggandi og ef maður á erfitt þá getur hún veitt manni styrk. Það er oft mikil gleði sem fylgir tónlist. Einhver lífsgleði.“

Stundum er tónlistin þó abstrakt

Líðan og tilfinningar geta haft áhrif á pensilstrokur myndlistarmannsins og litaval hans. Hvað með slík áhrif á tónskáldið?

„Jú, stundum sér maður það ekki sjálfur fyrr en eftir á þegar maður fer að skoða hlutina í samhengi. Maður sér þetta þá skýrar heldur en þegar maður var í hringiðunni. Það hvernig manni líður og er stemmdur hefur áhrif á hvað maður lætur frá sér eða hvað maður gerir. Stundum er tónlistin þó abstrakt og þá er erfitt að sjá tengingarnar. Persónuleiki listamannsins kemur þó held ég alltaf í gegn.“

Nóbelsskáldið skrifaði um hinn hreina tón. Hver er hinn hreini tónn í huga tónskáldsins? Er hann til? „Ég hugsa mikið um tær hljóð versus óhrein hljóð eða suð. Hinn hreini tónn er þá tónn sem er ekki mengaður af öðrum hljóðum.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -