Gísli Reginn Pétursson fæddist í Reykjavík 27. júní 1995. Hann lést 7. ágúst 2021 á heimili sínu í Reykjavík.
Gísli Reginn var ungur og efnilegur listamaður en hann nam við Lunga-skólann á Seyðisfirði en hann gerði alla tíð stuttmyndir og vídeóverk og var vídeóverk eftir hann sýnt í Listasafni Reykjavíkur 2015.
Margir minnast hans í Morgunblaðinu í dag en þar segir meðal annars Ingibjörg Hjartardóttir í einstaklega fallegri minningargrein „Hann var óvanalega næmur á fólk. Hann gat hermt eftir því svo nákvæmlega að hann varð að þeim einstaklingi sem hann tók fyrir, ekki bara að hann næði röddinni eða einhverjum áberandi töktum, heldur persónuleika hans og nærveru. Hann náði sálinni.“
Líkur hún minningargreininni með þessum ljóðræna texta um daginn áður en hann dó „Þennan sama dag sá amman hvar hann stikaði ákveðinn niður Laugaveginn, yfir á Lækjargötuna og framhjá glugganum þar sem hún sat. Hann var í leðurjakkanum sem hún gaf honum nýlega. Glæsilegur ungur maður með allt lífið fram undan. Hann gekk svo nálægt glugganum að hún hefði getað snert hann ef rúðan hefði ekki verið á milli. Hann horfði einbeittur fram á veginn, vissi greinilega hvert hann var að fara, það var eftirvænting í svip hans. Svo hvarf hann fyrir hornið.“
Útför Gísla Regins fór fram í Fríkirkjunni í dag.