„Stöðvið heiminn, hér fer ég út,“ segir Kolbrún Halldórsdóttir, formaður Bandalags íslenskra listamanna, í minningarorðum um Gísla Rúnar Jónsson leikara sem jarðsunginn verður í dag. Hann lést á heimili sínu þriðjudaginn 28. júlí, 67 ára að aldri.
Minningin um húmoristann, séníið og ástríðumanninn Gísla Rúnar mun lifa um ókomna tíð.
Kolbrún er ein margra sem minnast þessa þjóðþekkta leikara með minningarorðum í Morgunblaðinu í dag. Hún segir kveðjustundina erfiða sem hafi komið skyndilega og óundirbúna. Glíma Gísla Rúnars við áskoranir lífsins var snúin og loks kom að því að sandurinn í tímaglasinu rann út, tónlistin hljóðnaði, heimurinn stöðvaðist og Gísli Rúnar yfirgaf vagninn. „Eftir sitjum við og höldum ferðalaginu áfram án hans, yljum okkur við litríkar minningarnar og í bakgrunni heyrum við óminn af Smile eftir Charlie Chaplin,“ segir Kolbrún.
Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri segir að Gísli Rúnar hafi engan átt sinn líkan og að þjóðin eigi nú ógleymanlegar minningar um hann enda litríkur og óborganlegur karakter. Leikhússtjórinn segir að framlag leikarans til íslensks leikhúslíf sé ómetanlegt og fáist seint fullþakkað. „Gísli Rúnar var séní og ástríðumaður. Ástríðan fyrir leikhúsinu og lífinu var drifkrafturinn. Honum lá alltaf mikið á hjarta, hann gaf aldrei afslátt. Alltaf skyldi farið alla leið. Hans er sárt saknað. Minningin um húmoristann, séníið og ástríðumanninn Gísla Rúnar mun lifa um ókomna tíð. Sjálfur er ég fullur þakklætis fyrir vináttu, samstarf og ógleymanlegar stundir sem ég átti með vini mínum,“ segir Magnús Geir.
Fjölskylda Gísla Rúnars heitins ákvað að sjónvarp frá útförinni vegna hertra sóttvarnarreglna og fjöldatakmarkana. Aðeins munu nánustu aðstandendur og vinir koma saman í kirkjunni en útförinni verður sjónvarpað beint í Sjónvarpi Símans og streymt á netinu. Gísli Rúnar verður jarðsunginn kl. 15 í dag. Fjölskyldan hvetur alla þá sem elskuðu þennan mikla listamann til að eiga fallega stund, kveikja á kertum og vera með okkur í anda og fylgjast með jarðarförinni á netinu.“