Aflétting samkomutakmarkanna og lengri opnunartími skemmtistaða hafði sitt að segja í störfum lögreglu nú í nótt. Umferðarlagabrotin tróna þó á toppnum eftir Jónsmessu og þannig hafði lögregla afskipti af fjölda ökumanna sem grunaðir eru um ölvunarakstur í höfuðborginni.
Tilkynning um allsérstæðan árekstur barst þá lögreglu um miðnæturbil í gær, en bifreið ökumanns hafnaði á ljósastaur eftir glæfraakstur í Grafarholti. Draga þurfti bifreiðina af vettvangi með dráttarbifreið, en ekki er vitað hvort ökumaður slasaðist. Tveir ökumenn gistu fangageymslur vegna gruns um ölvunarakstur, að því er kemur fram í dagbók lögreglu.
Þá kom lögregla dyravörðum á skemmtistað í miðbæ Reykjavíkur til aðstoðar en staðargestur þótti erfiður í vöfum og var vísað á dyr. Fram kemur í dagbók lögreglu að einstaklingurinn hafi haldið sína leið eftir tiltal, án frekari afskipta af hálfu yfirvalda.