Gleðipinnar sem eiga fjölda veitingastaða um land allt hafa ákveðið að bjóða börnum ókeypis að borða meðan á verkfalli stendur. Um er að ræða veitingastaðina Saffran, Hamborgarafabrikkuna, American Style, Roadhouse, Aktu taktu, Eldsmiðjuna, Kaffivagninn, Keiluhöllina, Shake&Pizza, Blackbox og Pítuna.
Tilboðið gildir til kl. 17 alla virka daga fyrir 12 ára og yngri og er einn ókeypis barnaréttur með hverjum keyptum aðalrétti.
„Það þekkja það allir foreldrar á eigin skinni að það getur tekið á taugarnar þegar verkföll standa yfir. Ég fékk ábendingu frá stelpu sem ég þekki sem er einmitt móðir þriggja barna í verkfalli. Hún spurði mig einfaldlega af hverju veitingastaðir væru ekki að bjóða barnvæn tilboð og létta þar með undir með foreldrum sem þurfa að skipuleggja sinn dag upp á nýtt. Mér fannst þetta alveg rakið og við erum að bregðast við því með þessum hætti”, segir Jóhannes Ásbörnsson, talsmaður Gleðipinna, um uppátæki sem verður eflaust vel þegið hjá barnafjölskyldum á meðan á verkfalli stendur.