Miðvikudagur 15. janúar, 2025
7.8 C
Reykjavik

Glímir enn við reiðina

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sveini Rúnari Einarssyni var nauðgað af hópi karlmanna á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum sumarið 2012. Hann leitaði til gæsluliða á svæðinu eftir nauðgunina og segir að þeir hafi tekið honum vel og verið hjálplegir en lögreglan var aldrei kvödd til og honum bent á að fara að sofa og leita til neyðarmóttöku daginn eftir. Sveinn Rúnar sagði aðeins sínum allra nánustu vinum frá atvikinu, bældi niður tilfinningar sínar og byrjaði ekki að vinna í afleiðingunum fyrr en mörgum árum síðar.

„Ég gróf þetta bara niður í undirmeðvitundina, ræddi ekki við neinn og leitaði mér ekki neinnar hjálpar,“ segir Sveinn Rúnar. „Ég kærði aldrei og sé í rauninni mjög mikið eftir því í dag. Mér finnst að ef fólk verður fyrir ofbeldi, tala nú ekki um nauðgun, þá eigi það skilyrðislaust að kæra. En það er auðvelt að vera vitur eftir á. Ég var að vinna sem þjónn á þessum tíma og kastaði mér út í vinnuna, fór að drekka meira en áður og reyndi bara að gleyma að þessu. Það var í rauninni ekki fyrr en fyrir ári síðan sem ég leitaði mér aðstoðar til að vinna úr þessari reynslu og eftirköstunum.“

Sveinn Rúnar segist ekki gefa mikið fyrir þann frasa að tíminn lækni öll sár. Það sem þurfi til að ná sér eftir slíka reynslu sé að læra að vinna með sárin, þau hverfi ekkert.

Það skapaðist algjör vítahringur hjá mér sem ég er núna fyrst að koma mér út úr.

„Þegar þetta gerðist þá breytti það öllu hjá mér,“ viðurkennir hann.

„Ég var búinn að skrá mig í nám en hætti við að fara í það og leitaði bara í aðstæður sem ég þekkti og mér fannst ég öruggur í. Ég gerði mér ekki sjálfur grein fyrir því hvað ég óttaðist nálægð við fólk, enn þann dag í dag á ég erfitt með að hleypa fólki að mér. Með því að grafa þessa reynslu undir teppi sat ég bara fastur, ég hélt ekkert áfram. Það skapaðist algjör vítahringur hjá mér sem ég er núna fyrst að koma mér út úr.“

Vildi ekki ræða atvikið

Spurður um viðbrögð fjölskyldunnar segir Sveinn Rúnar að hann hafi haldið þessu leyndu fyrir fjölskyldunni alveg þangað til hann fór í viðtal við Fréttablaðið ári eftir atvikið.

- Auglýsing -

„Nokkrir nánustu vinir mínir vissu af þessu en það var ekki fyrr en ég fór í þetta viðtal sem ég sagði öðrum frá því. Fjölskyldan sýndi mikinn stuðning og hefur stutt mig vel síðan. En ég hef eiginlega ekkert viljað ræða þetta og það var erfitt fyrir vini og fjölskyldu að reyna að hefja einhverjar umræður um þetta. Ég var bara ekkert til í það.“

Það er til vont fólk og fólk sem gerir svona hluti af einbeittum brotavilja.

Spurður hvort hann hafi upplifað þau algengu viðbrögð fórnarlamba nauðgana að kenna sjálfum sér um dregur Sveinn Rúnar við sig svarið.

„Ég kenndi mér ekki um að þetta hefði gerst, nei,“ segir hann. „En ég fór í dálítið mikla sjálfsvorkunn, mér fannst einhvern veginn að ég ætti rétt á því að upplifa mig sem fórnarlamb í daglegum aðstæðum. Ég hef líka velt því fyrir mér hvort ég hafi orðið fyrir þessu vegna þess að ég er samkynhneigður, en ég held að það ekki sé ástæðan. Það er til vont fólk og fólk sem gerir svona hluti af einbeittum brotavilja og ég held ég hafi bara lent í því að vera rangur maður á röngum stað á röngum tíma.“

- Auglýsing -

Erfiðast að ná tökum á reiðinni

Reiðin hefur kannski verið það sem Sveinn Rúnar hefur átt erfiðast með að ná tökum á í vinnunni við að takast á við nauðgunina og afleiðingar hennar.

„Reiðin er þarna enn, því miður,“ segir hann. „Ég þarf að vinna í sjálfum mér á hverjum degi til að halda henni og kvíðanum í skefjum. Ég þarf ekki að minna mig á nauðgunina sjálfa endalaust, en ég þarf að minna mig á að vinna í sjálfum mér. Ef ég geri það ekki þá dett ég aftur ofan í sjálfsvorkunn og reiði og þar vil ég ekki vera.“

Sveinn Rúnar Einarsson segir umræðuna um þessi mál auðvitað hafa gjörbreyst frá því 2012 og það hafi verið opnað fyrir miklu víðtækari skilning á nauðgunum og afleiðingum þeirra. Mynd / Arþór Birkisson

Hluti af því að vinna sig út úr þessu var að fara á Þjóðhátíð aftur síðastliðið sumar, nokkuð sem Sveinn Rúnar segir hafa vakið mikla furðu fólksins í kringum hann.

„Ég vil taka það skýrt fram að ég hef aldrei ásakað Þjóðhátíð eða Vestmannaeyjar,“ segir hann. „Þetta hefði getað gerst hvar sem var. Mér fannst alltaf mjög skrýtið þegar fólk var að segja við mig að Vestmannaeyjar væru ógeðslegt bæjarfélag og Þjóðhátíð byði upp á nauðganir. Það var mjög gott fyrir mig að fara aftur, sérstaklega gladdi það mig að sjá hvað gæslan hefur aukist mikið og hvað það er tekið miklu fastar á kynferðisofbeldi. Ég fann aldrei fyrir óöryggi á meðan ég var þar.“

Karlmenn þurfa að vera óhræddari við að stíga fram

Spurður hvort honum finnist tekið öðruvísi á nauðgunum á karlmönnum en konum segir Sveinn Rúnar að því miður haldi hann að sú sé ennþá raunin.

Karlmenn þurfa að vera óhræddari við að stíga fram.

„Ef við tökum til dæmis umræðuna út frá #metoo þá er óskaplega lítið rætt um það áreiti sem vissulega er til staðar innan samfélags samkynhneigðra,“ segir hann.

„Það er enn þá einhvern veginn viðhorfið að vegna þess að tveir karlmenn eigi í hlut sé þetta ekkert svo alvarlegt af því að karlmenn séu nú alltaf til í kynlíf. Það þarf að opna þá umræðu meira og karlmenn þurfa að vera óhræddari við að stíga fram. Nokkrir hafa nú þegar gert það en ég held að það séu miklu, miklu fleiri samkynhneigðir karlmenn sem hafa orðið fyrir áreiti og nauðgunum heldur en hefur komið upp á yfirborðið. Ef þú ert í minnihlutahóp þá ertu hræddari við að stíga fram vegna fordómanna, það er bara staðreynd og það þarf að breytast.“

Mynd / Arnþór Birkisson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -