Glúmur Baldvinsson segir frá atviki er hann lenti í nýlega og tengist bankaviðskiptum:
„Nú lenti ég illa í því lagsmaður. Þurfti að hafa samband við banka minn í dag til að ganga frá áríðandi málum. Er gætu varðað heill þjóðarinnar og ráðið niðurlögum hennar.“
Heldur áfram:
„En þeir hvorki svara síma né ansa netpóstum lengur. Svo ég þurfti að hefja netspjall. Þar fékk ég samband við með öllu rænulausan róbót. Eftir fimm mínútna árangurslaust samtal við þetta heilalausa vélmenni og fífl fauk svo illa í mig að ég kallaði það öllum illum nöfnum í feitletruðum HÁSTÖFUM og sagði því aldrei að þrífast og heimtaði lifandi homo erectus og sapiens eða vitiborinn uppréttan mann samstundis. Sumsé ég heimtaði ráðgjafa.“
Þá kom í ljós að „vélmennið“ var af holdi og blóði:
„Þá kom á daginn að ég var að tala við lifandi, uppréttan, ráðgjafa allan tímann. Það reyndist erfitt að ljúka þessu samtali á góðu nótunum. Frekar óheppilegt allt saman.“