Jökull Júlíusson, söngvari KALEO, hefur að mestu verið búsettur í Bandaríkjunum undanfarin ár og hann segist kunna vel við sig.
„Ég kann ágætlega við mig,“ segir hann. „Og er mjög heppinn að geta unnið þar í frábærum stúdíóum við góðar aðstæður með toppfólki. Það getur aftur á móti verið svolítil einangrun þegar þú vinnur mikið og ég sakna Íslands töluvert þegar kemur að fjölskyldu og vinum.“
Lífsstíll rokkara hefur lengi haft yfir sér goðsagnakenndan ljóma, hvernig líkar þér við þetta líf?
„Þetta getur verið mjög einkennilegt líf og fjölbreytilegt,“ útskýrir Jökull. „Það er til dæmis allt önnur rútína að vera í plötugerð en að vera á tónleikaferðalagi. Þegar ég kláraði tónleikaferðalagið á síðasta ári vorum við meira og minna búnir að vera á ferðinni stanslaust í þrjú til fjögur ár. Búa í rútu eða á hótelum og vakna í nýrri borg eða nýju landi nánast daglega. Það var mjög góð tilfinning að einfaldlega sofa í sama rúmi lengur en nokkra daga í einu og gera einföldustu hluti eins og að setja í uppþvottavél.“
Sumir sjá fyrir sér að þessum lífsstíl fylgi mikið djamm – kannastu við það?
„Það er alveg klárlega í boði,“ segir Jökull og hlær. „Þetta er ekki eins og hefðbundið líf þar sem þú vinnur frá átta til fjögur. Allt er gott í hófi, eins og einhver sagði.
Mér finnst mikilvægt að koma upp rútínu og ég legg til dæmis áherslu á hreyfingu og hollt matarræði sem getur verið krefjandi, sérstaklega á tónleikaferðalagi, en hjálpar mér mikið.“
Árið 2017 var Jökull fluttur á sjúkrahús vegna einkenna sem stöfuðu af álagi og of lítilli hvíld á tónleikaferðalögum. Tekur þetta mikið á?
„Algjörlega,“ segir Jökull ákveðinn. „Síðustu ár höfum við oftast verið á tónleikaferðalagi hátt í þrjú hundruð daga á ári. Þetta tekur alveg klárlega sinn toll. Ferðalögin sérstaklega og oftast eru „frídagar“ einfaldlega „ferðadagar“. Það kemur fyrir að maður hefur verið að fljúga allt að níu sinnum í viku.“
Er ekkert þreytandi að vera á stöðugum þvælingi?
„Það getur svo sannarlega verið það. Þess vegna finnst mér alltaf frábært að reyna að koma reglulega heim til Íslands og setja í samband og aðeins að jarðtengja. Ég vona að ég fái að koma aðeins oftar heim á næstu árum.“
Lestu viðtalið í heild í nýjasta tölublaði Mannlífs.