Nýtt húsnæði verður tekið til notkunar undir starfsemi Góða hirðisins og Sorpu eftir næstu áramót en verslunin við Fellsmúla er orðin of lítil fyrir starfsemina.
Nýja húsnæðið sem um ræðir er við Köllunarklettsveg. Þar var áður skrifstofuhúsnæði Kassagerðar Reykjavíkur en það er tvöfalt stærra en gamla húsnæðið í Fellsmúla. Nýja húsnæðið er ríflega þrjú þúsund fermetrar að stærð og má því ætla að Góði hirðirinn bjóði upp á enn meira úrval en nú er í boði í Fellsmúla.
Fram kemur í Morgunblaðinu í dag að stjórnarformaður Sorpu, Líf Magneudóttir vilji skoða það nánar að fjölga búðunum og jafnvel opna verslanir í Kópavogi og Hafnarfirði. Í dag eru verslanir Góða hirðisins tvær. Önnur er, eins og fram hefur komið, í Fellsmúlanum en hin er staðsett á Hverfisgötu.