Tónlistarhátíðin Secret Solstice verður haldin með pompi og prakt dagana 21. til 24. júní næstkomandi, en hátíðin er búin að stimpla sig inn sem ein stærsta hátíð ársins á Íslandi. Meðal listamanna sem troða upp í ár eru Bonnie Tyler, Jet Black Joe, Slayer og Stormzy.
Þó tónlistin sé miðuð að fullorðnum hátíðargestum eru börn einnig hjartanlega velkomin á Secret Solstice og mikið lagt upp úr því að afþreying sé fyrir hendi fyrir þau. Frítt er inn á hátíðina fyrir börn tíu ára og yngri í fylgd með fullorðnum og er búið að skipuleggja metnaðarfulla dagskrá á svæðinu í samstarfi við Kátt á Klambra sem hefur staðið fyrir ýmsum viðburðum fyrir fjölskyldur á Klambratúni síðustu misseri.
Meðal þess sem er í boði á barnasvæðinu er fjölskyldujóga, krakkarave og kennsla í starfi beatbox-listamanna. Húlladúllan verður á svæðinu sem og ýmis önnur afþreying, svo sem þrautabrautir og nóg af sápukúlum.
„Kátt á Klambra mun sjá um barnasvæðið á Secret Solstice og mun hafa Kátt á Solstice. En barnahátíðin Kátt á Klambra sem haldin er á Klambratúni í lok júlí hefur heldur betur slegið í gegn hjá börnum og fjölskyldum og barnasvæði þeirra á Solstice í fyrra vakti mikla lukku hjá börnum hátíðarinnar,“ segir Jóna Elísabet Ottesen sem stendur að baki Kátt á Klambra.
Svæðið opnar klukkan 13.00 á föstudeginum og er opið til klukkan 20.00. Svæðið verður síðan opið frá klukkan 12.00 til 20.00 laugardaginn og sunnudaginn að sögn Jónu.
„Gígja og Jara munu sjá um Fjölskyldujóga, Dj Álfbeat mun sjá um tónlistina, Siggi Bahama verður með Beatbox kennslu, Húlladúllan verður á svæðinu með sína snilld og Góði Úlfurinn treður upp hjá okkur á Laugardeginum, en þetta verða líklega hans síðustu tónleikar hér á landi þar sem hann flytur út með fjölskyldunni sinni í sumar. Það verður svo barnadiskó og barnareif í tjaldinu okkar þar sem verður dansað.“
Myndir / Secret Solstice