Í tilkynningu frá Flokk fólksins sem send var Mannlífi í dag, segir að flokkurinn taki undir tillögu Sjálfstæðisflokksins um að greiða foreldrum bætur sem eiga börn á aldrinum 12 mánaða eða eldri og eru enn á biðlista eftir leikskólaplássi.
Grípa þarf til fjölþættra úrræða til að ná utan um það neyðarástand sem myndast hefur vegna skorts á leikskólaplássum. Flokkur fólksins hefur áður talað fyrir því að veita neyðarstyrki til foreldra sem eru verst settir. Ekki allir foreldrar eiga stuðningsnet í Reykjavík og hafa því engan til að hlaupa undir bagga. Horfa þarf til þeirra sem eru efnalitlir og fátækir og veita þeim sérstakan stuðning.
Stétt dagforeldra útrýmt
Flokkur fólksins hefur einnig gagnrýnt harðlega hvernig búið er að fara með stétt dagforeldra. Henni hefur nánast verið útrýmt því talið var að verkefnið „Brúum bilið“ væri handan við hornið. Slík var vanáætlunin hjá síðasta meirihluta.
Styrkja þarf dagforeldra með öllum ráðum því nú er sannarlega mikil þörf á þessari stétt sem hefur skipað mikilvægan sess í gæslu barna svo lengi sem elstu menn muna.
Flokkur fólksins hefur einnig lagt til úrræði um heimagreiðslur sem jafngildir niðurgreiðslum Reykjavíkurborgar fyrir leikskólapláss fyrstu tvö árin. Einhverjir foreldrar hafa tækifæri til að vera heima hjá barni sínu fyrstu misserin og geta vel hugsað sér að þiggja mánaðarlegar greiðslur frekar en að þiggja leikskólapláss. Úrræði um heimagreiðslur mun sennilega létta á biðlistum og gætu foreldrar átt þess kost að vera heima hjá barni sínu í allt að tvö ár.
Rótgróinn mannekluvandi
Það sem þó stendur upp úr í öllu þessu er hinn rótgróni mannekluvandi. Það verður að lagfæra launin, það er grunnur að því að þessi störf eru ekki eftirsóknarverðari. Ef þessu vandræðaástandi verður ekki aflétt munu foreldrar barna á bið eftir plássi ekki komast til vinnu sinnar.
Sagt að unnið sé hörðum höndum að tryggja mönnun hjá skóla- og frístundasviði. En hvað felst í því nákvæmlega? Þetta hefur verið viðkvæðið í mörg ár, að verið sé að vinna að því að tryggja mönnun. En svona er staðan samt.
Á sama tíma er fólki yfir 70 ára aldri meinað að vinna eftir þann aldur en meðal þess aldurshóps er að finna fjársjóð af mannauði.