Greiðslumiðlun hf. hefur lokað tímabundið fyrir notkun íslykils sem auðkenningaraðferð inn í Pei greiðslulausnina.
Ákvörðun er tekin í kjölfar fjársvikamáls þar sem ung kona, sem er fíkill, náði að skuldsetja móður sína fyrir milljón krónur. Komst konan yfir íslykils-lykilorð móður sinnar og keypti vörur í Elko fyrir fyrrgreinda fjárhæð.
Sjá einnig: Móðir fíkils situr uppi með milljón króna tjón.
Fjallað var um málið í Fréttablaðinu í gær og í dag. Gagnrýnir móðirin, Jóna Guðrún Ólafsdóttir, að svo auðveldlega sé hægt að stofna til reikningsviðskipta með Pei greiðslulausninni.
Um ákvörðun Greiðslumiðlunar eftir að frétt Fréttablaðsins birtist í gær segir hún: „Það er gott að fyrirtækið sýni einhverja ábyrgð og mögulega verður þetta til þess að enginn annar verði fórnarlamb slíkra fjársvika. Það er þá til einhvers unnið.“
Fréttablaðið hefur óskað eftir frekari upplýsingum um fjölda fjársvikamála sem átt hafa sér stað með greiðslulausninni, sem og heildarupphæð þeirra, en Greiðslumiðlun neitaði að veita þær upplýsingar.