Gréta María Grétarsdóttir, sem nýlega sagði upp starfi sínu sem framkvæmdastjóri nýsköpunar, samfélagsábyrgðar og fjárfestatengsla hjá Brimi, er í viðtali við Reyni Traustason í Mannlífinu. Gréta nýtur mikillar virðingar í viðskiptalífinu og er eftirsótt til setu í stjórnum eða til að leiða fyrirtæki. Hún ólst upp á Flateyri til 11 ára aldurs og segir að það hafi verið frábært að alast þar upp.
„Ég hef oft hugsað um hvað móti mann þegar maður er spurður og maður hugsar af hverju maður er eins og maður er. Ég held að það að alast upp í svona þorpi eins og Flateyri skipti mjög miklu máli bara upp á sjálfstæðið og annað sem maður fengi ekki í stærri sveitarfélögum og bæjarfélögum.“
Hún talar um nálægðina við náttúruna á æskuárunum. Hún lék sér í fjörunni, niðri á bryggjunni og inni í firði. „Maður fékk að ráða sér svolítið sjálfur.“ Hún segist vera sjálfstæð og að það hafi fylgt sér alla tíð og hún segir að sjálfstæðið hafi mótast á árunum fyrir vestan.
Faðir Grétu Maríu, Grétar Kristjánsson, var skipstjóri á togaranum Gylli. Móðir hennar sá að mestu um heimilið og börnin sex í landi.
„Það er ekkert eðlileg ábyrgð að vera með sex börn og sjá um heimilið. Þetta er mikið álag og maður hefur hugsað varðandi kvenréttindi; konur hafa barist fyrir jöfnum launum og annað en það er samt þannig að ennþá í dag, og sérstaklega hjá konum sem eru giftar sjómönnum og líka í öðrum samböndum, taka þær svo mikið af álagi heimilisins. Pabbi kom í land einn dag í viku og þá mátti gera allt. Fyrir mömmu að hafa allt í röð og reglu; það fór allt út um gluggann.“
Svo féll snjóflóðið mannskæða á Flateyri eftir að fjölskyldan flutti suður. Gréta María segist hafa verið í skólanum þegar hún frétti um snjóflóðið. „Þetta er eins og með 11. september; maður man hvar maður var staddur.
Mér finnst vera erfiðara að tala um það eftir því sem lengra líður; kannski af því að maður er eldri og þroskaðri. Bara hvað fólkið gekk í gegnum og upplifði. Árið 1995 var ég ennþá ung og ekki alveg að átta sig á þessu. Ég þekkti marga og þar á meðal Sólrúnu Ástu sem hafði verið mér í bekk. Hún lést.“
Gréta María talar um hvað lífið getur verið hverfult og getur breyst á stuttum tíma og að hvetji hana til að taka aldrei neinu sem gefnu. „Lífið er stutt.“
„Þetta er eins og með 11. september; maður man hvar maður var staddur
Gott að vera númer tvö
Gréta María stundaði nám við Menntaskólann við Hamrahlíð og lærði svo véla- og iðnaðarverkfærði við Háskóla Íslands. „Raungreinarnar lágu vel fyrir mér þannig að verkfræðin varð fyrir valinu. Þetta var mjög fjölbreytt og skemmtilegt nám og maður vissi að það væru svo miklir möguleikar sem hefur sýnt sig; ég er búin að vera í ólíkum geirum í atvinnulífinu og alls staðar hefur bakgrunnurinn og námið komið sér vel.“
Gréta María vakti athygli sem framkvæmdastjóri Krónunnar.
„Ég var búin að vinna hjá Arion banka í nokkur ár og var þar forstöðurmaður hagdeildar sem er með viðskiptaáætlun fyrir bankann. Síðan í framhaldi af því hugsaði ég með mér að mig langaði til að gera eitthvað meira. Ég varð fjármálastjóri hjá Festi, sem er móðurfélag sem átti Krónuna, Elko, Nóatún og Bakkann vöruhótel, og síðan urðu eigendaskipti og þá tók ég við Krónunni.“
Hvað með samkeppnina við Bónus?
„Við fórum markvissara að segja frá því hvað við vorum að gera og það þarf að hlusta á viðskiptavinina; hverju þeir kalla eftir. Svo þarf að segja þeim hvað verið sé að gera sem er þá að uppfylla þarfir þeirra bæði til dæmis varðandi eins og ávexti og grænmeti en líka áherslur í umhverfismálum og vera svolítið leiðandi í þeim efnum. Það er alltaf gott að vera númer tvö af því að þá er alltaf hægt að sækja; það er oft frekar varnarstaða að vera stærstur á markaðnum.“
Hún er spurð um strategíuna og talar hún um ungu kynslóðina sem eru viðskiptavinir framtíðarinnar og hvernig hægt sé að höfða til hennar.
„Ef hægt er að ná þeim þá er hægt að búa til góða stöðu.“ Hún nefnir líka tæknina og var hugað að því hvernig Krónan gæti verið á undan í tækninni. „Við vorum fyrst með sjálfsafgreiðslukassana og síðan bjuggum við til app þannig að það var hægt að versla á netinu og þegar Covid skall á þá vorum við tilbúin.“
Gréta María segir frábært fólk vinna hjá Krónunni. „Það er fólk sem er búið að vinna lengi í geiranum og svo fengum við frábært fólk með okkur sem var með mikla reynslu í öðru, er frábært á sínu sviði og kom inn með góða þekkingu. Þegar maður er stjórnandi þá leggur maður alltaf áherslu á hvernig maður geti sett saman teymi sem nær góðum árangri. Það er gott að vera með fólk sem er með mikla reynslu en svo er alltaf heilbrigt að fá inn ferskt og nýtt blóð.“
Þegar maður er stjórnandi þá leggur maður alltaf áherslu á hvernig maður geti sett saman teymi sem nær góðum árangri
Tækifærin eru til að grípa þau og hóf Gréta María svo störf hjá Brimi.
„Ég hugsa þetta þannig að það skiptir ekki alltaf máli hvar maður er að vinna af því að verkefnið er alltaf það sama: Hvernig á að ná betri árangri? Hvaða áherslur á að hafa og hvernig á að tengja við viðskiptavinina og svo starfsfólkið af því að það eru sérfræðingarnir? Hvernig á að virkja það? Þegar ég vann hjá Krónunni þá sagði ég oft að ég gæti setið allan daginn á skrifstofunni og ætlað að koma með einhverjar hugmyndir en hugmyndirnar eru frá fólkinu sem er á gólfinu. Það veit hvað þarf að gera. Og það er alveg sama hvort það sé í sjávarútveginum eða þar: Það eru sömu grundvallaratriði.“
Fyrirmyndir mikilvægar
Nú siglir Gréta María enn á ný mið en hún er að taka við sem forstjóri hjá Arctic Adventures en fyrirtækið er á meðal stærstu ferðaþjónustufyrirtækja landsins. Hún líkir þessu við önnur fyrirtæki.
„Þetta er það sama: Það er verið að fá viðskiptavini og það er mikil nálægð. Þeir eru einhvers staðar úti í náttúrunni með leiðsögumanni og það er gaman hvernig fólkið er þjálfað. Hvað vill viðskiptavinurinn? Eftir hverju er hann að leitast við að upplifa?“
Það er uppbyggingastarf fram undan innan fyrirtækisins en heimsfaraldurinn hefur haft áhrif á reksturinn eins og svo víða.
„Fyrirtækið velti rúmum sjö milljörðum króna fyrir Covid en núna er það ekki nálægt því að vera þar en við munum svo sannarlega komast fljótt þangað aftur þegar við fáum ferðamenn til landsins.“
Gréta María er með stórar hugmyndir varðandi framtíð fyrirtækisins.
„Ég er alveg búin að pæla í því hvað við ætlum að gera og hvernig við ætlum að gera það. Það er öflugt fólk til staðar,“ segir hún en það þarf að bæta við og hafa í huga hvernig eigi að þjálfa starfsmenn og virkja þá sem og hvernig eigi að ná til viðskiptavina og skilja þarfir þeirra betur þannig að hægt sé að ná til fleiri. „Þarna er gríðarlega hörð samkeppni eins og í matvörunni; það eru margir og mikil samkeppni í verðum. Þetta þarf að sjálfsögðu að vera vel rekið.“
Ég er alveg búin að pæla í því hvað við ætlum að gera og hvernig við ætlum að gera það
Gréta María er spurð hvernig stelpur sem vilja verða athafnakonur ættu að undirbúa sig og komast í álnir. Hún segir að fyrirmyndir séu mikilvægar. „Vigdís Finnbogadóttir var forseti þegar ég var að alast upp og þegar ég fór í verkfræðina var Rannveig Rist forstjóri álversins. Þetta skiptir miklu máli.“ Hún segir að ungar stelpur eigi að vera óhræddar við að setja sig í samband við fólk sem þær telji að geti hjálpað sér. Og í versta falli fá þær „nei“. „Þá er enginn heimsendir.“ Hún segir að til þess að stýra fyrirtæki skipti mestu máli að þekkja sjálfan sig vegna þess að það sé ekki hægt að hjálpa öðrum að vaxa ef viðkomandi þekkir sjálfan sig ekki vel.
Ekki hægt að hjálpa öðrum að vaxa ef viðkomandi þekkir sjálfan sig ekki vel
Gréta María æfði íþróttir áður fyrr og valdi á endanum körfubolta og var hún þjálfari á tímabili og þjálfaði um tíma meistaraflokk KR.
„Ég var oft að spá í hvar styrkleikarnir væru hjá hverjum og einum þannig að liðið yrði sem best,“ segir Gréta María sem líkir þessu við atvinnulífið. Hún segir að fólk geti ekki verið gott í öllu. „Þegar fólk vinnur við það sem það er gott í þá tekur það ennþá meiri framförum.“
Viðtalið á Vef-Tv er að finna hér.