Þriðjudagur 19. nóvember, 2024
-5.2 C
Reykjavik

Gríðarleg áhrif Game of Thrones

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Höfundar, útgefendur og annað bókmenntafólk munu hittast og ræða íslenskar furðusögur á málþingi sem verður haldið í Norræna húsinu á sunnudag klukkan 14 undir yfirskriftinni Æsingur – Furðusagnahátíð. En hvað eru furðusögur? Mannlíf náði tali af Brynhildi Heiðar- og Ómarsdóttir sem stýrir pallborðsumræðum og grennslaðist fyrir um það.

 

„Furðusögur er í stuttu máli samheiti yfir fantasíur, hrollvekjur og vísindaskáldsögur, eða með öðrum orðum skáldskápur sem tekur á furðulegum hlutum í okkar heimi og reynir að ímynda sér framtíðina eða alls konar hliðarvíddir,“ útskýrir Brynhildur og bætir við að á málþinginu verði einmitt farið nánar út í þetta og jafnframt skoðað hvaða stöðu furðusögur hafi í íslenskri sagnamenningu og hvert þær stefni.

Að hennar sögn er þetta í fyrsta sinn sem Æsingur fer fram en um er að ræða afsprengi hinnar alþjóðlegu hátíðar Ice-Con sem hefur verið haldin tvívegis í Reykjavík við góðar undirtektir, fyrst árið 2016 og svo 2018. „Ice-Con var vel tekið og það benti til þess að það væri vettvangur til að ræða furðusögur á íslensku. Til að tryggja framgang furðusögunnar er nefnilega mikilvægt að höfundar og lesendur fái tækifæri til að spjalla saman um furðusögur og kynnist nýjum straumum og stefnum og að lesendur geti kynnst höfundum sem eru að spreyta sig á þessari stórskemmtilegu tegund bókmennta,“ segir hún en á meðal höfunda sem taka þátt í pallborðsumræðum má nefna Hildi Knútsdóttur, Alexander Dan og Ármann Jakobsson.

Hið yfirnáttúrulega aftur vinsælt

Furðusögur, hrollvekjur, fantasíur og vísindaskáldsögur eru vinsælt lesefni úti í heimi, en Brynhildur segir að í raun sé skrítið hvað þeim hafi gengið illa að ná fótfestu á Íslandi. „Eins og við vitum hafa þannig sögur verið vinsælar erlendis um langt skeið en það er eins og íslenskir lesendur, og þá er ég að ekki að tala um börn heldur fullorðna, hafi hingað til ekki verið móttækilegir fyrir þeim. Það er bara á síðustu árum í kjölfar gríðarlegra áhrifa Game of Thrones sem fullorðna fólkið virðist vera orðið opnara. Hér áður fyrr lifðu furðusögur nefnilega góðu lífi á Íslandi, eins og sést á Íslendingasögunum og þjóðsögum, þar sem nornir og draugar ganga ljósum logum, en það er eins og ekki hafi verið pláss fyrir hið yfirnáttúrulega í íslenskum bókmenntum á 20. öldinni þegar raunsæið réði ríkjum. Nú virðist furðan vera að ryðja sér til rúms aftur.“

„Eins og við vitum hafa þannig sögur verið vinsælar erlendis um langt skeið en það er eins og íslenskir lesendur … hafi hingað til ekki verið móttækilegir fyrir þeim.“

Brynhildur er auðheyrilega ánægð með þá þróun enda segist hún sjálf vera mikill aðdáandi slíkra sagna og hafi verið það um langt skeið. „Ég get víst ekki neitað því,“ segir hún og hlær. „Ég hef mjög gaman af þessari bókmenntagrein og var ein þeirra sem tók þátt í að skipuleggja síðustu tvær Ice-Con hátíðir.“ Í ár segist hún þó ekki koma nálægt skipulaginu, heldur ætli hún að láta sér nægja að stýra pallborðsumræðunum.

- Auglýsing -

„Og talandi um það, þá er kannski rétt að taka fram að það verða tvö pallborð á málþinginu þar sem farið verður inn á fyrrnefnd atriði, furðusöguna sem bókmenntagrein, stöðu slíkra sagna í íslenskri sagnamenningu og hvert þær stefna,“ segir hún. „Svo lesa höfundar upp úr verkum sem eru annaðhvort í vinnslu eða eru væntanleg um jólin. Og við endum þetta svo á hressu pubkvissi í Stúdentakjallaranum um kvöldið.“

 

 

- Auglýsing -

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -